21.6.2007 | 16:51
Svartur blettur á þjóðfélaginu
Viðar Eggertsson leikstjóra rak í rogastans er hann heyrði viðtal við mig að kvöldi 19. júní í fréttum ríkissjónvarpsins. Ég svaraði því til að mér fyndust niðurstöður könnunar HR á launamun kynjanna sem birtar voru fyrr um daginn ekki setja svartan blett á kvenréttindadaginn enda væri verið að staðfesta það sem við vissum áður. Viðar túlkar svar mitt sem svo að það sé í lagi að konur bjóði öðrum konum lægri laun en þær bjóða körlum eins og könnunin leiðir í ljós.
Að sjálfsögðu er það ekki í lagi. Og það er heldur ekki í lagi að karlar bjóði öðrum körlum enn hærri laun en þeir bjóða konum. Launamisréttið er óþolandi en það hefur verið staðfest í mörgum könnunum. Það er hluti af þjóðfélagsgerð okkar. Á þjóðveldisöld voru laun kvenna um helmingur af launum karla. Um aldamótin 1900 voru laun verkakvenna þriðjungur til helmingur af launum verkamanna. Nú hefur þó tekist að koma þessum mun upp í um það bil tvo þriðju af launum karla ef miðað er við meðallaun. Þó þokast allt, allt of hægt. Kynbundinn launamunur, þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, menntunar og fleiri þátta er svo annað mál. Hann er talinn um 15% (Félagsmálaráðuneytið 2006) sem er mun hærri tala en hjá þeim löndum sem við miðum okkur helst við.
Ég skil ekki að fólk skuli vera undrandi á því að konur bjóði öðrum konum lægri laun en körlum eða ráðleggi þeim að biðja um lægri laun. Konur eru aldar upp í þessu þjóðfélagi kynjamismunar og við erum aldar upp í því að við og okkar störf séu minna virði en störf karla. Þau skilaboð berast úr öllum áttum, m.a. með þeirri staðreynd hve bráðnauðsynleg störf kvennastétta eru metin til lágra launa. Það kostar átak og breytt hugarfar að brjótast út úr þeim hugsunarhætti.
Franski félagsfræðingurinn Pierre Boudieu hefur sett fram kenningar um hvernig valdi er viðhaldið innan ákveðinna hópa. Þar leika menning, menntun, kyn, hefðir og tengslanet stórt hlutverk. Konur eru ekkert síður en karlar þátttakendur í að viðhalda því valdi sem hluti karla hefur yfir samfélaginu. Konur ráða líka yfir valdi, m.a. valdinu til að viðhalda óbreyttu ástandi. Með því að mótmæla ekki, með því að vera hlýðnar og góðar, með því að bíða og segja: þetta er allt að koma, með því að hafna aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna, með því að neita því að kyn skipti máli, viðhalda konur ríkjandi ástandi.
Það þarf að breyta hugarfarinu og til þess þarf markvissar aðgerðir, allt frá því í leikskólum og upp úr. Það er á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða en einstaklingarnir bera líka ábyrgð við að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Ef marka má nýjar rannsóknir er jafnréttisuppeldið sem svo mikil áhersla var lögð á upp úr 1970 nánast gleymt og grafið. Því yngri Íslendingar, því sterkari staðalmyndir af kynjunum.
Foreldrar, afar og ömmur, leikskólakennarar, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, atvinnurekendur, launafólk og ekki síst baráttufólk, við berum öll ábyrgð á jafnrétti þegnanna. Launamisrétti kynjanna er svartur blettur á íslensku samfélagi ekki bara 19. júní heldur alla hina 364 dagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)