Svartur blettur á þjóðfélaginu

Viðar Eggertsson leikstjóra rak í rogastans er hann heyrði viðtal við mig að kvöldi 19. júní í fréttum ríkissjónvarpsins. Ég svaraði því til að mér fyndust niðurstöður könnunar HR á launamun kynjanna sem birtar voru fyrr um daginn ekki setja svartan blett á kvenréttindadaginn enda væri verið að staðfesta það sem við vissum áður. Viðar túlkar svar mitt sem svo að það sé í lagi að konur bjóði öðrum konum lægri laun en þær bjóða körlum eins og könnunin leiðir í ljós.

Að sjálfsögðu er það ekki í lagi. Og það er heldur ekki í lagi að karlar bjóði öðrum körlum enn hærri laun en þeir bjóða konum. Launamisréttið er óþolandi en það hefur verið staðfest í mörgum könnunum. Það er hluti af þjóðfélagsgerð okkar. Á þjóðveldisöld voru laun kvenna um helmingur af launum karla. Um aldamótin 1900 voru laun verkakvenna þriðjungur til helmingur af launum verkamanna. Nú hefur þó tekist að koma þessum mun upp í um það bil tvo þriðju af launum karla ef miðað er við meðallaun. Þó þokast allt, allt of hægt. Kynbundinn launamunur, þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, menntunar og fleiri þátta er svo annað mál. Hann er talinn um 15% (Félagsmálaráðuneytið 2006) sem er mun hærri tala en hjá þeim löndum sem við miðum okkur helst við.

Ég skil ekki að fólk skuli vera undrandi á því að konur bjóði öðrum konum lægri laun en körlum eða ráðleggi þeim að biðja um lægri laun. Konur eru aldar upp í þessu þjóðfélagi kynjamismunar og við erum aldar upp í því að við og okkar störf séu minna virði en störf karla. Þau skilaboð berast úr öllum áttum, m.a. með þeirri staðreynd hve bráðnauðsynleg störf kvennastétta eru metin til lágra launa. Það kostar átak og breytt hugarfar að brjótast út úr þeim hugsunarhætti.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Boudieu hefur sett fram kenningar um hvernig valdi er viðhaldið innan ákveðinna hópa. Þar leika menning, menntun, kyn, hefðir og tengslanet stórt hlutverk. Konur eru ekkert síður en karlar þátttakendur í að viðhalda því valdi sem hluti karla hefur yfir samfélaginu. Konur ráða líka yfir valdi, m.a. valdinu til að viðhalda óbreyttu ástandi. Með því að mótmæla ekki, með því að vera hlýðnar og góðar, með því að bíða og segja: þetta er allt að koma, með því að hafna aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna, með því að neita því að kyn skipti máli, viðhalda konur ríkjandi ástandi.

Það þarf að breyta hugarfarinu og til þess þarf markvissar aðgerðir, allt frá því í leikskólum og upp úr. Það er á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða en einstaklingarnir bera líka ábyrgð við að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Ef marka má nýjar rannsóknir er jafnréttisuppeldið sem svo mikil áhersla var lögð á upp úr 1970 nánast gleymt og grafið. Því yngri Íslendingar, því sterkari staðalmyndir af kynjunum.

Foreldrar, afar og ömmur, leikskólakennarar, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, atvinnurekendur, launafólk og ekki síst baráttufólk, við berum öll ábyrgð á jafnrétti þegnanna. Launamisrétti kynjanna er svartur blettur á íslensku samfélagi ekki bara 19. júní heldur alla hina 364 dagana.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef hægt væri að taka upp nákvæmar afkastamælingar í störfum fólks þá væri hugsanlega hægt að sjá skýringar á launamun og afhverju hann er til staðar. 

Þótt tvær manneskjur séu með sömu menntun og í sama starfi þá gæti það vel hugsast að önnur þeirra afkastaði mun meiru í starfi og ætti þar af leiðandi kröfu á hærri launum.

Það eru því ýmsar breytur sem ekki eru teknar með inn í reikninginn og erfitt er að mæla. Ekki er hægt að komast að einhverri niðurstöðu um þessi mál nema að taka tillit til allra breyta.

Daníel (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 17:26

2 Smámynd: halkatla

þetta er góð grein, en athugaðu endilega mitt blogg um þetta þarsem ég færi rök fyrir því afhverju þetta er ekki endilega svona! Mér finnst þessi rannsókn til háborinnar skammar og skil ekki hvernig svona bull kemst yfir höfuð í fjölmiðla - hvað þá á 19.júní. 

Ég get einhvernvegin liðið það að vera rökkuð niður fyrir margt, en ekki fyrir það að vera kona. Og ég tek þessar niðurstöður persónulega fyrir hönd allra þeirra stórkostlegu kvenna sem ég hef umgengist allt mitt líf, þær myndu aldrei ráðleggja körlum að biðja um hærri laun en annarri konu, ég vil sjá sannanir og rökstuðning áður en ég fer að trúa því einsog nýju neti að svo siðlaus hegðun sé daglegt brauð. Þær konur sem ég þekki eru upptilhópa ekki femínistar en þær eru samt mjög meðvitaðar um þennan launamun og eru að berjast á móti honum. Sú barátta tengist femínisma ekki á nokkurn hátt og ég hef ekki enn heyrt karlmann halda því fram að hann vilji hafa launamun kynjanna. T.d af þeirri ástæðu á ég bágt með að trúa aulalegum niðurstöðum þessarar rannsóknar.

halkatla, 21.6.2007 kl. 20:09

3 Smámynd: Viðar Eggertsson

Takk fyrir Kristín! Þetta vildi ég heyra í viðtalinu á RUV. Nú fékk ég - og aðrir - alvöru svar! Takk aftur.

Mér finnst mikilvægt að fólk, sem telur órétt vera í samfélaginu, og fær tækifæri til að ræða það, eigi að nýta það eins og það getur. Ég var að auglýsa eftir því í pistli mínum, öðru ekki. Og nú fékk ég það, takk...

Viðar Eggertsson, 21.6.2007 kl. 20:37

4 identicon

Árni Helgi Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 21:32

5 identicon

Ég er karlmaður.  Persónulega skil ég ekki af hverju konur fái lægri laun en karlar, fyrir sambærileg störf.

Ég held að mistök kvenréttindabaráttunnar hafi verið að einblína of stíft á þetta sem mannréttindamál eingöngu.  Auðvitað er þetta mannréttindabarátta í sjálfu sér, en við verðum að spyrja okkur, hverjir græði á þessu ástandi.

Ekki eru það eiginmennirnir, synirnir eða feðurnir, svo mikið er víst.  Ef við spyrðum 100 karlmenn á öllum aldri að því, hvort kona og karl ættu að vera á sömu launum, fyrir sömu vinnu, myndu flestir, ef ekki allir, svara því játandi.

Hvar liggur þá feillinn?  Jú, hjá atvinnurekendum.  Þetta er nefnilega spurning um "pjúra" stéttarbaráttu.  Ég held líka, að þegar við horfumst í augu við það, þá sjáum við líka, af hverju árangurinn lætur svona á sér standa; það er vegna þess, að konur nenna ekki, frekar en karlar dagsins í dag, að heyja baráttu fyrir betri kjörum.  

Auvitað ættu karlar og konur að sameina krafta sína í baráttunni fyrir bættum kjörum kvenna.  Það græða allir á því að konur séu á sömu launum og karlar. 

Árni Helgi Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 21:44

6 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Oft læt ég mig dreyma svo villta drauma

Ég læt mig dreyma um það að konur, allar sem ein, sem vinna í þessum bráðnauðsynlegu störfum og eru svo illa launuð - standi upp og gangi út úr vinnunni sinni og setji samfélagið allt í alvöru spennitreyju í langan langan tíma. Ekki fyrr en slík barátta verður heyjuð fyrir þessar stéttir mun eitthvað alvöru gerast að ég held. Ég leyfði mér meira að segja að fantasera um að á afmæli kvennafrídagsins árið 2005 myndi eitthvað stórkostlegt gerast og réttlætið myndi loksins komast í framkvæmd af því konur færu hreinlega í tugþúsundum í öllum stéttum í alvöru verkfall í margar vikur!

EKKERT GERÐIST! 

Já já, ég veit þetta er ýktur draumur - en ég leyfi mér samt

Andrea J. Ólafsdóttir, 22.6.2007 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband