Fréttir af sænskum einkabréfum

Sagnfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir heimildum um einkalíf fólks. Hvað er leyfilegt að birta eða nota, hversu langt má ganga í að túlka tilfinningar og frá hverju má segja? Þeir sagnfræðingar sem rannsaka dagbækur eða bréf, heimildir sem ekki voru ætlaðar öðrum en þeim sem skrifaði eða viðtakanda bréfs, verða að glíma við margar siðferðilegar spurningar. En hvernig á að bregðast við þegar eigendur bréfa taka sig til og birta þau, jafnvel þótt þau kunni að særa fjölskyldur viðkomandi eða valda nánast uppþoti. Hver á þá að spyrja siðferðilegra spurninga eða eru þær óþarfar?

Þessa dagana fjalla sænskir fjölmiðlar um ástarbréf tónskáldsins og vísnasöngvarans Evert Taube til konu að nafni Siv Seybolt. Á miðvikudag afhenti hún Gautaborgarháskóla 200 bréf sem Evert Taube skrifaði henni. Taube var sextugur þegar samband þeirra hófst upp úr 1950, Seybolt var þá 27 ára. Hann var giftur maður og átti börn og barnabörn.

Þeir sem þekkja til vísna og laga Evert Taube vita að hann orti gjarnan um alls konar konur ekki síst dömur í suðrænum höfnum, t.d. stúlkuna frá Havanna sem seldi sjómanninum blíðu sína fyrir rúbínhring eða þá hún Carmensíta sem vildi alls ekki giftast sænska sjóaranum. Þeim sem ekki vita hver Evert Taube er má segja að hann samdi t.d. lagið sem hér er sungið undir heitinu Vorkvöld í Reykjavík. Sven Bertil Taube sonur Everts sem er bæði frægur vísnasöngvari og leikari segir í viðtali að faðir sinn hafi dáð konur og ort um þær, vísurnar endurspegli platónska sýn skáldsins á konur fremur en ástarsambönd. Hann kannast ekki við að móðir sín hafi kvartað yfir framhjáhaldi.

Bréfin endurspegla heitt samband milli skáldsins/söngvarans og ungu konunnar. Þau ferðuðust saman og meðan Evert lá á spítala rigndi bréfunum yfir Siv. Í bunkanum fannst frumrit að einu laga Taube en þar var líka að finna bréf frá eiginkonunni sem bað Siv að skila ýmsum eigum Everts, t.d. hring. Hún vissi sem sagt af sambandinu.

Evert Taube er goðsögn. Hinir yndislegu söngvar hans munu lifa um aldir. Þess vegna vekja þessi bréf svona mikla athygli. Það er nú þegar byrjað að vinna úr þeim með útgáfu bókar í huga. Þegar fræga fólkið á í hlut er engum hlíft. Þá komast engar siðferðisspurningar að. Bréfin varpa án efa nýju ljósi á líf Evert Taube en það má spyrja hvort ekki hefði mátt bíða þar til lengra er liðið frá dauða hans (1976).  Hvaða reglur eiga að gilda um svo persónulegar heimildir? Því er vandsvarað og hver á að svara því?  

 


Fréttir af sænska mýbitinu

Ég fékk margar samúðarkveðjur eftir að ég skrifaði pistilinn um sænska mýbitið. Það kannast margir við þennan fjanda og hafa ljótar sögur að segja. Bitið þróaðist þannig að ofnæmistöflurnar virkuðu og smátt og smátt dró úr bólgunni. Ég hélt á tímabili að ég væri komin með blóðeitrun svo ljótur var bletturinn kringum bitið en svo vaknaði ég næsta morgun og þá var blárauði liturinn svo til horfinn og núna lítur sárið út eins og mar.

Svona lýsingar eru ekkert spennandi lesning en það þarf að vara fólk við sem fer til Norðurlandanna á sumrin. Ég var að velta fyrir mér hvers konar fyrirbæri þetta er? Hvers konar eitur er það sem flugurnar spýta inn í mann og hvers vegna bregst ég og margir fleiri svona hart við. Eru Íslendingar eitthvað sérstaklega viðkvæmir fyrir mýbiti á norðurslóðum eða hvað? Ég býst við að þeir sem búa með kvikindunum öll sumar séu meira og minna ónæmir. Það væri gaman ef einhver gæti frætt mig um þetta.

Þegar ég vann á Balkanskaganum fyrir nokkrum árum var enginn skortur á moskítóflugum en þær eru greinilega af allt öðrum stofni. Bit þeirra ollu blöðrum og það gróf í þeim. Engar bólgur, í það minnsta ekki hjá mér. Þær eru hins vegar þekktar fyrir að bera alls konar pestir á milli manna t.d. malaríu. Nóg um mýbit að sinni. Íslenska sumarið bíður bjart og fagurt.   


Bloggfærslur 22. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband