Dómari missir starf sitt vegna vændiskaupa

Dagens Nyheter segir frá því í dag að dómari við undirrétt í Malmö hafi endanlega tapað máli sem hann höfðaði til að fá starf sitt til baka. Hann var handtekinn og skráður fyrir um það bil ári er lögreglan í Malmö réðist inn í vændishús þar í borg. Þar voru staddir um 60 karlmenn sem allir voru settir á skrá yfir vændiskaupendur. Kaup á vændi eru sem kunnugt er refsiverð í Svíaríki og sektum beitt ef menn eru staðnir að verki. Nú hefur dómstóll staðfest að hegðun dómarans hafi valdið honum slíkum álitshnekki og dregið svo úr trausti á honum að ekki sé réttlætanlegt að hann fái starf sitt til baka. Þetta er tímamótadómur.

Lögin um bann við kaupum á vændi eru að virka og eflaust verður þessi dómur mörgum karlinum viðvörun. Vonandi styttist í að við fáum sams konar lög hér á landi. Þau eru besta leiðin til að draga úr eftirspurn eftir kaupum á líkömum kvenna og barna. Þau voru sett vændiskaupendum og melludólgum til höfuðs. Svo er hin hliðin á málinu, það þarf að hjálpa þeim konum og börnum sem neyðast til að stunda vændi þannig að þau geti hafið nýtt líf, laus við eiturlyf og þvingarnir þess þrælalífs sem vændi er.   


Hvað varð um sumarið?

Þegar ég gekk sem leið lá úr Hlíðunum vestur í Háskóla í morgun var alveg ljóst að sumarið var farið í frí í bili. Norðan gjóla, mun kaldari en undanfarna daga olli því að ég hneppti að mér frakkann. Sumarið bíður þó í leyni. Í garði sem ég gekk fram hjá læddist kattaróféti um með grimmdarsvip og ætlaði sér greinilega að krækja í söngfugl. sem hoppaði á grein fyrir ofan hann. Runnar blómstra og ilma og unga fólkið hamast við að hreinsa borgina. Ekki veitir af.

Þegar ég gekk yfir göngubrúna og meðfram Hringbrautinni varð mér hugsað hvað Vatnsmýrin er óendanlega merkilegt fyrirbæri hér inni í miðri borg. Þar voru kríur í æfingaflugi, endur syntu á tjörnum og svartþrestir héldu fjölmennan félagsfund á grasbala. Það mætti þó vera snyrtilegra á þessari gönguleið því í síkjum og tjörnum er víða drasl á floti. Eins gott að hreinsunarflokkarnir fari að koma sér í Vatnsmýrina. Við verðum að hugsa vel um þessa gersemi í borgarlandinu og gæta þess að ganga ekki of nærri lífríkinu þar.

Já, sumarið tók sér frí í dag einmitt þegar ég er á leið út í sveit. Það verður smá kvennafundur á Suðurlandi, nánar tiltekið í Grímsnesinu, aðeins opinn boðsgestum. Á morgun held ég svo norður í land til að vera viðstödd afhjúpun minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur að Haukagili í Vatnsdal. Þangað eru allir velkomnir.

Í fyrra voru 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar sem haldið var upp á með margvíslegum hætti. Meðal annars ákvað ríkisstjórnin að reisa minnisvarða um Bríeti sem vonandi verður afhjúpaður í haust á 151 árs afmæli hennar. Kvenréttindafélagið ákvað svo að reisa minnisvarða á fæðingarstað Bríetar í tilefni af 100 ára afmæli félagsins í ár og það er hann sem mun verða öllum sýnilegur frá og með morgundeginum.

Vonandi batnar veðrið fljótt svo að við þurfum ekki að norpa í norðangarra í Vatnsdalnum. Ekki voru fagrar lýsingar á ástandinu á Holtavörðuheiðinni í fréttunum áðan. En ég segi bara: „Íslands konur hefjist handa“. Ekki hefði Bríet látið kalda norðanvinda stöðva sig.


Bloggfærslur 27. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband