Kenningar um krabbamein

Ég lagði leið mína í Háskólabíó í dag til að hlusta á Jane Plant en hún hefur sett fram kenningar um tengsl mataræðis og vaxandi tíðni krabbameins. Jane Plant glímdi sjálf við brjóstakrabbamein og velti mikið fyrir sér orsökum þess að hún veiktist. Hún vann við rannsóknir í Kína og það vakti athygli hennar hve fátítt krabbamein var í því stóra landi en þar hefur til skamms tíma tíðkast allt annað mataræði en á Vesturlöndum, einkum byggt á hrísgrjónum og grænmeti. Amerísk ómenning er hins vegar að berast til Asíu eins og annarra heimshluta og það er eins og við manninn mælt, krabbameinstilfellum fjölgar.

Í stuttu máli sagt heldur Plant því fram að annars vegar sé fæði okkar allt of súrt og hins vegar að við séum að dæla í okkur alls kyns auka- og eiturefnum sem geta valdið krabbameini. Aðalsökudólgurinn er að hennar dómi allur sá mjólkurmatur sem við Vesturlandabúar neytum.  Eftir að hún veiktist var henni ráðlagt að borða jógúrt og hún veiktist að nýju. Eftir að hún hætti algjörlega að borða mjólkurmat, hvarf krabbameinið. Fleiri hafa sömu sögu að segja og meðal lærisveina hennar er dr. Oddur Benediktsson prófessor.

Það hefur lengi verið talið að samhengi væri milli lífsstíls og vaxandi tíðni krabbameins. Bent hefur verið á áhættuþætti eins og reykingar, mengun, geislun og slæmt mataræði, t.d. unnar matvörur. Plant bendir á að við séum alls ekki gerð til að þamba mjólk alla ævina og það sem verra er, nútímamjólk geldur fyrir áburð, hormóna, lyf og annað það sem kúnum er gefið. Plant sýndi mynd af breskum kúm sem búið er að rækta þannig að þær hafa nánast engin hold en gríðarleg júgur. Við vitum að umhverfi okkar er orðið mjög mengað og mjólkin fer ekki varhluta af því.

Hver eru ráðin? Jú, að draga sem mest úr neyslu mjólkurvara og alveg ef fólk veikist af krabbameini. Auka neyslu á lífrænu grænmeti, ávöxtum, baunum, sojaafurðum og hætta neyslu á nauta- og svínakjöti sem helst verður fyrir barðinu á ræktun og hormónagjöfum. Þá þarf vart að nefna nauðsyn þess að auka hreyfingu.

Því meira af ávöxtum og grænmeti í bland við hreyfingu og aðra hollustu, því betra.

Jane Plant hefur meðal annars skrifað bókina: Your Life in Your Hands: Understanding, Preventing and Overcoming Breast Cancer (2006).  


Bloggfærslur 7. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband