Frú Pritchard kveður

Ekki má ég svíkja lesendur mína um síðustu fréttir af frú Pritchard. Þáttunum um hina frábæru frú Pritchard lauk í gærkvöldi og ég ætla rétt að vona að þeir verði sýndir í íslensku sjónvarpi. Þeir sýna bæði ljósu og dökku hliðar stórnmálanna og varpa skemmtilegu ljósi á líf stjórnmálamanna, tryggð og svik, hugsjónir og hagsmuni.

Síðasti þátturinn fór í glímu forsætisráðherrans við þá klípu sem eiginmaður hennar kom henni í. Eins og ég sagði frá í síðasta pistli um þættina þá kom í ljós að hann hafði tekið þátt í peningaþvætti fyrir 15 árum. Eldri dóttir þeirra sagði móður sinni frá þessu og nú eru góð ráð dýr. Fyrst stendur frú Pritchard frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að afhjúpa svikin og segja af sér eða að láta sem hún viti ekki neitt og halda sínu striki. Síðari konsturinn fæli í sér svik við það sem hún lofaði kjósendum en það var að gerast ekki lygari eins og allir hinir stjórnmálamennirnir.

Smátt og smátt kemur í ljós að síðari kosturinn er ekki vænlegur. Of margir vita um málið og einn þeirra sem veit reynir að notfæra sér þá vitneskju til að fá samning við breska ríkið. Aðstoðarkona forsætisráðherrans sem hefur reynt allt til að halda henni á floti (stundum með tvíræðum aðferðum) gerir henni ljóst að blaðamaðurinn sem veit af hneykslinu muni fyrr eða síðar láta það flakka á síðum einhvers blaðsins.

Fjármálaráðherrann sem sjálf á í mikilli krísu vegna sambands við ungan mann (hún er að sjálfsögðu kona eins og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn frú Pritchard) ráðleggur frú Pritchard að skilja við eiginmanninn svo hún geti haldið áfram í stjórnmálum. Frú Pritchard verður nú að velja milli eiginmannsins - lífsförunautar síns, föður dætranna tveggja sem þó hefur komið henni í mikinn vanda og þess að þjóna þjóðinni áfram, láta til sín taka og koma í framkvæmd þeim góðu málum sem hún hafði lofað. Frú Pritchard er í siðferðilegri klemmu og það sjáum við síðast til hennar að ráðherrarnir ganga af fundi hennar en eiginmaðurinn gengur á hennar fund. Áhorfendur verða að svara því hvað rétt er að gera í stöðunni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband