Clinton hinn kvensami

Ég skellti mér í sund áðan í góða veðrinu. Á heimleiðinni hitti ég vinkonu mína sem var að koma frá Vínarborg. Þar bar helst til tíðinda að tveir tignargestir voru í heimsókn og settu mark sitt á mannlífið í borginni með öryggisgæslu og fjölmiðlafári. Annar var Pútín forseti Rússlands og var öryggisgæslan aðallega vegna hans. Hinn var Bill Clinton sem kominn var til Vínar til að afla fjár í þágu baráttunnar gegn alnæmi í Afríku.

Fjáröflunarsamkoma var haldin við höllina Schönbrunn sem var aðsetur keisaranna í Austurísk-Ungverska keisaradæminu þar til þeim síðasta var kurteislega sagt að hypja sig 1918. Clinton til halds og trausts var leikkonan Sharon Stone sem óneitanlega er afar glæsileg kona. Fjölmiðlum fannst þau skötuhjúin brosa ískyggilega mikið hvort til annars en eins og þeir minnast sem muna eftir valdatíð Clintons þá lék kvensemi forsetans fyrrverandi hann grátt.

Fjölmiðlar hundeltu Clinton og Stone og mynduðu í bak og fyrir. Forsíður voru undirlagar af fréttum af þeim með getgátusniði. Nú er bara að vona að Clinton hagi sér almennilega og fari ekki að eyðileggja fyrir Hillary konu sinni. Nýtt framhjáhalds- eða kynlífshneyksli gæti orðið henni dýrkeypt í þeirri baráttu sem framundan er um tilnefningu sem forsetaframbjóðandi fyrir hönd demókrata.

Hillary á þegar á brattann að sækja en ég er sannfærð um að fengur yrði að henni sem forseta, hún heldur fram allt öðrum gildum en bókstafstrúarliðið sem nú býr í Hvíta húsinu. En hún kemst aldrei þangað ef Bill lætur kvensemina stjórna sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband