Heima á ný með mýbit

Ég kom til landsins seinni partinn í dag eftir margra daga fjarveru. Ég var í Svíþjóð, alla leið norður í Umeå á kynjafræðiráðstefnu sem stóð frá fimmtudegi til sunnudags. Þar af leiðandi hef ég ekki bloggað stafkrók í heila viku. Eins gott að bæta úr því. Á næstu dögum mun ég því flytja hinar ýmsu Svíþjóðarfréttir.

Á morgun er 19. júní - kvenréttindadagurinn - og þá ætla ég meðal annars að leiða göngu um slóðir kvenna í Þingholtunum og Kvosinni. Það er að segja ef heilsan leyfir. Ég varð nefnilega fyrir árás í Umeå eða réttara sagt út við ströndina sem er við Vesterbotten. Það var ógnarkvikindið mýfluga sem réðist á mig og beit mig. Þetta er í þriðja skipti sem ég verð fyrir mýbiti á Norðurlöndum og í þriðja skipti sem ég stokkbólgna og fæ nokkuð sterk ofnæmisviðbrögð. Það er ótrúlegt að þetta næstum því ósýnilega kvikindi á norðurslóðum skuli geta valdið slíkum skaða. Kjöraðstæður mýsins eru sæmilegur hiti, vatn og skógur. Þegar þetta þrennt er til staðar fljúga þær um sem óðar og bíta þá sem þeim líst vel á en ég er greinilega í þeim hópi. Mýið fer svo sannarlega í manngreinarálit, það kærir sig ekkert um sumt fólk, hvort sem það eru blóðflokkar eða eitthvað annað sem ræður því. They love me.  

Ráðstefnugestum sem fluttu erindi eða tóku þátt í umræðum var boðið í kvöldferð út að ströndinni þar sem snæddur var grillaður fiskur og fleira gott. Alls kyns varnir voru hafðar uppi en ein flugan ákvað að reyna að stinga mig í gegnum sokkana og tókst það.

Ég er búin að taka inn ofnæmistöflu, bera sótthreinsandi á stungusvæðið (það getur grafið í sárinu) og loks smurði bróðir minn elskulegur á mig bólgueyðandi geli. Nú er að sjá hvernig og hvort þetta dugar til að gera mig göngufæra á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Ái. Þú átt alla mína samúð.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 18.6.2007 kl. 23:14

2 identicon

Þú ert bara með svona sætt blóð kæra Kristín! En þú átt samúð mína - ég er voðalega oft illa útleikin eftir túra norðureftir en kannski ekki alveg svona. Var sjálf að koma frá Bergen af norðurlandaþingi landfræðinga og slapp við stungur.

Anna Karlsdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 23:40

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Heil og sæl. Bjó í Umea í 3 ár að læra Tannsmíði , Mýið var að gera út af við mig ,var bitin einn dagin um 47 stungur sem ég náði að telja og var illa haldin. Ein stungan var þó verst í ökklanum sem gerði það að verkum að ég komst ekki í neina skó,  þannig að ég skil þig vel, svo verður maður slæptur af  ofnæmislyfjum.   En á morgun er nýr dagur og þá húrra konur.   kveðja, 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.6.2007 kl. 00:41

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Góðan bata, mýbit er ekkert grín. Moskítóflugurnar halda alltaf ættarmót þegar fréttist af mér á ferð, þannig að þú færð samúð frá innstu hjartans rótum. Mýggurnar í Svíþjóð kunnu sér heldur ekki læti þegar við fórum með fjölskyldu Kristínar Karls í skútferð þar um slóðir hér um árið. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.6.2007 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband