Bleikur bær og launamunur kynjanna

Þá er 19. júní að kvöldi kominn. Dagurinn hefur verið undirlagður af umfjöllun um stöðu kvenna, allt frá upprifjunum á aðdraganda kosningaréttarins 1915 til launamunar kynjanna. Það verður ekki annað sagt en að fjölmiðlarnir hafi staðið sig vel en það ættu þeir auðvitað að gera alla hina 364 dagana þegar karlar eru alls ráðandi. Hvað um það, ég ætla að vera ánægð með daginn.

Dagurinn hófst með viðtölum í morgunútvarpinu þar sem Jóhanna jafnréttisráðherra lýsti því meðal annars yfir að það kynni að verða nauðsynlegt að setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Það er bráðnauðsynlegt. Annars gerist ekkert. Reynsla Norðmanna af lögum er góð en þar í landi ber stjórnum fyrirtækja að hafa séð til þess fyrir lok ársins að hlutur hvors kyns um sig sé ekki minni en 40%.

Kl. 10.00 voru bleiku steinarnir afhentir þingmönnum "norðvesturkarlakjördæmisins" þeim til hvatningar í störfum sínum. Af viðtölum við þá að dæma hafa þeir allir unnið vel að jafnréttismálum en eitthvað er nú mikið að í þeirra flokkum og í kjördæminu fyrst engin kona komst á þing þar á bæ. Þeir sýna vonandi og sanna að þeir hafi átt skilið að fá þessi hvatningarverðlaun. Eitthvað misskildi Einar Oddur málið, fannst að það væri verið að gera grín að sér og neitaði að taka við steininum. Þetta er hvatning ekki verðlaun fyrir unnin störf. Einar Oddur getur sýnt jafnréttishug í verki, t.d. innan fjárlaganefndar með því að styðja kvennasamtök til góðra verka.

Svo var kynnt ný könnun á launamisrétti kynjanna sem staðfesti það sem við vissum fyrir að bæði konur og karlar eru mótuð af því viðhorfi að konur og vinna þeirra sé minna virði en karla. Konur bjóða öðrum konum lægri laun en körlum og karlstjórnendur bjóða körlum enn hærri laun. Við búum í kynjakerfi sem gerir þennan greinarmun á kynjunum. Það þarf heldur betur að gera atlögu að ríkjandi viðhorfum og það kallar á aðgerðir. 

Síðdegis var svo kvennasögugangan sem tókst aldeilis ljómandi vel, þótt ég segi sjálf frá. Mæting var góð enda veðrið einstaklega gott. Eftir gönguna var boðið upp á kaffi og pönnukökur á Hallveigarstöðum, ásamt ræðum og kynningu á blaðinu 19. júní. Ingibjörg Sólrún rakti söguna og setti í samhengi við stöðu dagsins. Hennar niðurstaða var sú að hlýðni væri versti óvinur kvenna og að þessi hlýðni stæði fullveldi og frelsi kvenna fyrir þrifum. Þessu er ég innilega sammála. Bríet var ekki hlýðin, heldur ögrandi. Kvennaframboð voru ekki hlýðni við kerfið heldur uppreisn gegn því. Óhlýðni og samstaða hefur skilað konum meiri árangri en hlýðnin sem við erum aldar upp í.

Þetta er mjög umhugsunarvert þegar hlutur kvenna á þingi hefur staðnað og við erum enn einu sinni minnt á að  launamisrétti kynjanna er inngreipt í hugsunarhátt þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Góður dagur í gær. Já er þetta ekki bara með öllu ótrúlegt? Að við konur skulum vera metnar minna en karlar og ávallt talað um að ekki sé verið að ráða eftir hæfni ef konur eru ráðnar eða ef á að beita kynjakvótum... það er rétt eins og fólk virkilega sé farið að trúa heilaþvættinum og meti það sem svo að konur séu eitthvað minna hæfar en karlar þegar það talar svona. Hvernig ætli þessi svokallaða og langþráða "hugarfarsbreyting" muni fara fram í þjóðfélaginu þegar fólk leyfir sér að tala svona: "hæfasti einstaklingurinn var valinn" - og það er bara aldrei eða sjaldan kona = karlar eru hæfari en konur?

Við þurfum svo sannarlega að fara að verða óþekkari - hlýðni kemur okkur ekki áfram í þessari baráttu.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 20.6.2007 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband