Fréttir af sænskum einkabréfum

Sagnfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir heimildum um einkalíf fólks. Hvað er leyfilegt að birta eða nota, hversu langt má ganga í að túlka tilfinningar og frá hverju má segja? Þeir sagnfræðingar sem rannsaka dagbækur eða bréf, heimildir sem ekki voru ætlaðar öðrum en þeim sem skrifaði eða viðtakanda bréfs, verða að glíma við margar siðferðilegar spurningar. En hvernig á að bregðast við þegar eigendur bréfa taka sig til og birta þau, jafnvel þótt þau kunni að særa fjölskyldur viðkomandi eða valda nánast uppþoti. Hver á þá að spyrja siðferðilegra spurninga eða eru þær óþarfar?

Þessa dagana fjalla sænskir fjölmiðlar um ástarbréf tónskáldsins og vísnasöngvarans Evert Taube til konu að nafni Siv Seybolt. Á miðvikudag afhenti hún Gautaborgarháskóla 200 bréf sem Evert Taube skrifaði henni. Taube var sextugur þegar samband þeirra hófst upp úr 1950, Seybolt var þá 27 ára. Hann var giftur maður og átti börn og barnabörn.

Þeir sem þekkja til vísna og laga Evert Taube vita að hann orti gjarnan um alls konar konur ekki síst dömur í suðrænum höfnum, t.d. stúlkuna frá Havanna sem seldi sjómanninum blíðu sína fyrir rúbínhring eða þá hún Carmensíta sem vildi alls ekki giftast sænska sjóaranum. Þeim sem ekki vita hver Evert Taube er má segja að hann samdi t.d. lagið sem hér er sungið undir heitinu Vorkvöld í Reykjavík. Sven Bertil Taube sonur Everts sem er bæði frægur vísnasöngvari og leikari segir í viðtali að faðir sinn hafi dáð konur og ort um þær, vísurnar endurspegli platónska sýn skáldsins á konur fremur en ástarsambönd. Hann kannast ekki við að móðir sín hafi kvartað yfir framhjáhaldi.

Bréfin endurspegla heitt samband milli skáldsins/söngvarans og ungu konunnar. Þau ferðuðust saman og meðan Evert lá á spítala rigndi bréfunum yfir Siv. Í bunkanum fannst frumrit að einu laga Taube en þar var líka að finna bréf frá eiginkonunni sem bað Siv að skila ýmsum eigum Everts, t.d. hring. Hún vissi sem sagt af sambandinu.

Evert Taube er goðsögn. Hinir yndislegu söngvar hans munu lifa um aldir. Þess vegna vekja þessi bréf svona mikla athygli. Það er nú þegar byrjað að vinna úr þeim með útgáfu bókar í huga. Þegar fræga fólkið á í hlut er engum hlíft. Þá komast engar siðferðisspurningar að. Bréfin varpa án efa nýju ljósi á líf Evert Taube en það má spyrja hvort ekki hefði mátt bíða þar til lengra er liðið frá dauða hans (1976).  Hvaða reglur eiga að gilda um svo persónulegar heimildir? Því er vandsvarað og hver á að svara því?  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

Mér finnst þetta líka alltof stuttur tími. Það er samt voða erfitt að setja reglur um eitthvað svona.

halkatla, 23.6.2007 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband