23.6.2007 | 19:53
Betl og hundsbit í miðbænum
Það var frábær dagur lengst af í dag. Bókmenntaklúbburinn minn hittist á Hótel Holti í hádeginu og þar snæddum við undurgóðan hádegisverð. Á eftir hélt hópurinn í bæinn utan ein sem var á leið í næsta partý. Það tókst að komast niður á Jómfrú án mikilla útgjalda en litið var inn í nokkrar búðir. Í portinu á bak við Jómfrúna voru jasstónleikar að vanda en þeir hefjast nú kl. 15.00 alla laugardaga. Þeir Erik Quick, Sigurður Flosason og félagar fluttu ljúfan djass. Eftir því sem ég best veit skipuleggur Sigurður Flosason sumartónleika Jómfrúarinnar og hann er algjör snillingur. Þvílíkur mússíkant.
Eftir að tónleikunum lauk rölti ég í bókabúðir og stefndi loks á ríkið í Austurstræti til að kaupa hvítvín. Á leiðinni varð ég enn einu sinni fyrir því að menn reyndu að betla af mér peninga. Fyrir nokkrum dögum var ég inni í apóteki á Laugaveginum þar sem náungi einn bað mig um peninga og ég er hreinlega alltaf að lenda í þessu í miðbænum. Annað hvort ég ég svona góðkvenleg eða ríkkvenleg. Ég verð oft við slíkum óskum en þetta fer mjög í taugarnar á mér. Betl er bannað og til skammar. Borgaryfirvöld verða að taka á þessu ástandi í miðbænum.
En þá er það lokahnykkurinn á deginum. Þegar ég kom út úr ríkinu heyrði ég sáran barnsgrát. Lítill drengur grét hátt í fangi föður síns og blóð lak úr nefi og munni. Hann hafði vikið sér að hundi sem var bundinn fyrir utan ríkið en hundurinn gerði sér lítið fyrir og beit hann í andlitið. Foreldrarnir voru í sjokki en ég og fleiri sem þarna voru sögðu þeim að koma sér á Slysavarðstofuna á stundinni. Pabbinn brá sér inn í anddyrið og spurði hver ætti hundinn en síðan hröðuðu foreldrarnir sér af stað, vonandi á leið beint upp á spítala.
Ég varð vitni að því þegar eigandi hundsins kom á spretti út úr ríkinu, losaði hundinn og hljóp í burtu. Ég hafði ekki vit á því að reyna að stoppa hann, hefði viljað hafa myndavél. Hann var á fertugsaldri, mundi ég halda, mjög ljós yfirlitum og á rauðum stuttbuxum. Hann hljóp af vettvangi en að mínum dómi á að lóga dýrum sem bregðast svona við. Ég veit ekki nákvæmlega hvað barnið gerði en ég get ekki ímyndað mér að litli drengurinn hafi gert nokkuð það sem réttlætti þessi viðbrögð hundsins. Börn eru yfirleitt hrifin af dýrum. Ég er enn í uppnámi en vona að litli drengurinn hafi ekki beðið mikinn skaða.
Athugasemdir
Hryllingur þetta með drenginn og hundinn, ég á sjálf 2 hunda og það væri beint til dýralæknisins ef svona kæmi fyrir hjá mér. Slíkum hundi myndi ég ekki geta treyst. Annar minn er notaður fyrir hest og allt mögulegt og líkar það vel.
Ragnheiður , 23.6.2007 kl. 20:10
"Traust er ágætt, en eftirlit er betra."
(Vladimir Lenin)
Júlíus Valsson, 23.6.2007 kl. 21:30
Já ljótt er ef satt er.
Það er aldrei réttlætanlegt ef hundur bítur frá sér, en til málstaðar hundinum þá veit enginn hvað gekk á milli hans og barnsins, og læt ég fylgja með eina sögu sem er svo ég best veit sönn.
Það var einu sinni einn gamall hundur, að nálgast 10 árin sem hafði verið í eign fólks, frá því að hann var hvolpur, sem voru þá nýlega orðin afi og amma. Hundurinn hafði aldrei sýnt nein merki um grimmd eða neina hegðun sem gæti verið hættuleg mönnun og var þessi hundur mjög elskaður af sínum eigendum. Svo gerist það einn daginn þegar ungt barnabarn þeirra er eitt með hundinum að hann býtur það og foreldrar þess fara fram á það að hundinum sé lógað þar sem hann er augljóslega hættulegur. Afinn og amman greinilega mjög brugðið af atburðinum og hugsa að sjálfsögðu um öryggi barnabarnins ákveða að láta svæfa hundinn sem er svo gert á dýralæknastofu. Þegar hundurinn hefur sofnað svefninum langa taka dýralæknar eftir að blýantur er á kafi í eyranu á hundinum og draga þá ályktun að barnið hafi í óvitaskap stungið honum þangað og hundurinn hafi svarað á móti við sársakanum.
Þetta sýnir að það á aldrei að skilja hund eftir eftirlautslausan hjá óvitum og það á aldrei að láta óvita eftirlautslausa hjá hundum eða öðrum dýrum. Og í þessu ofangreindu atviki er það hundsins vegna.
Nú veit ég ekkert um málsatvik í þessu atviki sem þú lýsir, en þar sem ég er nú hundeigandi sem treysti mínum hundi, og veit að hann mundi aldrei gera þessu líkt óáreittur þá verð ég að segja þessum tiltekna hundeiganda til málsbótar að ég myndi bregðast nákvæmlega eins við, þ.e. flýja eins og fætur toga.
Hundar og eigendur þeirra eru nákvæmlega réttlausir þegar eitthvað eins og þetta gerist burtséð frá því hvort þetta sé hundsins eða barnsins orsök.
Nú er ég ekki að gera lítið úr því að hundurinn hafi bitið barnið, heldur einungis að benda á það að kannski hafi hann bitið það í vörn, og jafnframt að beina því til fólks að láta börnin sín ekki vaða yfir ókunnuga hunda án þess að spyrja eigendur þeirra hvort það sé í lagi. Því eins og við vitum eru persónuleikar dýra jafn mismunandi og fólks.
Birkir (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 22:33
halló halló halló
Þó þetta ser allveg hryllilegur atburður og þykir mer það mikið miður að þetta hafi gerst þá fynst mer ekki rettlatt að lóga dýrinu.
Að lóga dýrinu lagar ekki bitið.
En eg tek það aftur fram að þetta er hryllilegur atburður og hefði hundaeignadin auðvitað att að stoppa og tala við foreldra og allt það, auðvitað.
J.J (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 22:57
ég verð nú að segja að ég mundi ekki lóga dýrinu fyrr en að allt sé komið í ljós hvað gerðist ef t.d. tíkin mín mundi bíta einvhern mundi ég ekki lóga henni nema að ég vissi að aðilinn hefði ekkert gert henni þar sem að skapið í henni er stórkostlegt og mörg börn geta gert það sem þau vilja með henni og aldrei neitt vandamál.... hefur oft komið fyrir að börn hafa pínt hunda eins og stungið títi prjón í þá og hundurinn bitið og lógað :(
En þetta er hræðilegur atburður og hefði hundaeigandinn átt að sýna smá áyrgð og gefið sig fram og borgað lækniskostnað á barninu:)
hæhæ (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 23:49
"Betl er bannað og til skammar."
Heldur þú virkilega að fólk sem er að betla geri það út afþví að það er svo gaman? Þessi setning þín minnir mig á mjög strangan kennara sem kenndi mér í æsku, haha
Varðandi hundinn, fólkið með barnið er í 100% rétti. Það á ekki að skilja hund eftir í bandi án eftirlits fyrir framan verslun, sérstaklega þegar að það er svona mikið af fólki í bænum. Ég vona að það komist upp um þennan mann.
Stríða (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 09:11
Hvernig væri að uppalendur kenndu börnum sínum að umgangast dýr, þá sérstaklega rándýr sem má auðveldlega þekkja á vígtönnunum?
Bundið dýr á alltaf að láta í friði þar sem viðbrögð þess eru óráðin...Ef börnum væri kennt að láta þessi dýr í friði þá yrðu engar árásir frá þeim!
Guðrún Magnea Helgadóttir, 24.6.2007 kl. 11:48
Mér finnst allt í lagi að skilja hund eftir einann í bandi. Afturá móti hafa börn ekkert að gera að dýrum í bandi, nema eigandi dýrsins sé með. Börn sem ekki hafa vit á þessu eiga að vera undir eftirliti. Flest börn eru góð við dýr, en bara flest.
Ásta Kristín Norrman, 25.6.2007 kl. 02:24
Neyðin kennir naktri konu að spinna. Það betlar enginn sér til gamans. Bannað eða ekki. Greinilega tekur þjóðfélagið ekki nógu vel á "ástandinu". Á meðan verðum við að "þola" betlarana.
Hræðilegt með hundsbitið, vona innilega að barnið sé ekki mikið meitt. En að lóga dýrum án þess að vita kringumstæðurnar finnst mér of harkalegt.
Ester Júlía, 25.6.2007 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.