Frú Pritchard kveður

Ekki má ég svíkja lesendur mína um síðustu fréttir af frú Pritchard. Þáttunum um hina frábæru frú Pritchard lauk í gærkvöldi og ég ætla rétt að vona að þeir verði sýndir í íslensku sjónvarpi. Þeir sýna bæði ljósu og dökku hliðar stórnmálanna og varpa skemmtilegu ljósi á líf stjórnmálamanna, tryggð og svik, hugsjónir og hagsmuni.

Síðasti þátturinn fór í glímu forsætisráðherrans við þá klípu sem eiginmaður hennar kom henni í. Eins og ég sagði frá í síðasta pistli um þættina þá kom í ljós að hann hafði tekið þátt í peningaþvætti fyrir 15 árum. Eldri dóttir þeirra sagði móður sinni frá þessu og nú eru góð ráð dýr. Fyrst stendur frú Pritchard frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að afhjúpa svikin og segja af sér eða að láta sem hún viti ekki neitt og halda sínu striki. Síðari konsturinn fæli í sér svik við það sem hún lofaði kjósendum en það var að gerast ekki lygari eins og allir hinir stjórnmálamennirnir.

Smátt og smátt kemur í ljós að síðari kosturinn er ekki vænlegur. Of margir vita um málið og einn þeirra sem veit reynir að notfæra sér þá vitneskju til að fá samning við breska ríkið. Aðstoðarkona forsætisráðherrans sem hefur reynt allt til að halda henni á floti (stundum með tvíræðum aðferðum) gerir henni ljóst að blaðamaðurinn sem veit af hneykslinu muni fyrr eða síðar láta það flakka á síðum einhvers blaðsins.

Fjármálaráðherrann sem sjálf á í mikilli krísu vegna sambands við ungan mann (hún er að sjálfsögðu kona eins og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn frú Pritchard) ráðleggur frú Pritchard að skilja við eiginmanninn svo hún geti haldið áfram í stjórnmálum. Frú Pritchard verður nú að velja milli eiginmannsins - lífsförunautar síns, föður dætranna tveggja sem þó hefur komið henni í mikinn vanda og þess að þjóna þjóðinni áfram, láta til sín taka og koma í framkvæmd þeim góðu málum sem hún hafði lofað. Frú Pritchard er í siðferðilegri klemmu og það sjáum við síðast til hennar að ráðherrarnir ganga af fundi hennar en eiginmaðurinn gengur á hennar fund. Áhorfendur verða að svara því hvað rétt er að gera í stöðunni.  


Latur bloggari

Það hefur verið hálfgert gúrkuástand hjá mér undanfarna daga. Eftir að ríkisstjórnin var mynduð er úr mér allt pólitískt púður og mér dettur fátt í hug. Það stendur vonandi ekki lengi. Ég hef hins vegar verið því duglegri að lesa blogg annarra.

Fyrir nokkrum dögum datt ég niður á blogg Kristínar Jóhannsdóttur sem býr í Vancouver í Kanada. Hún skrifaði um nýlegar bíómyndir sem hún hafði leigt sér og vöktu áhuga minn. Önnur var finnsk mynd um fótboltastráka og -stelpur eða réttara sagt hjón sem ákváðu að keppa um það hver færi á heimsmeistaramótið í Þýskalandi (2006). Stórskemmtileg mynd að sögn nöfnu minnar. Hin myndin er kanadísk löggumynd sem hefur verið verðlaunuð í bak og fyrir í Kanada. Það er auðvitað dæmigert að hvorug þessara mynda hefur borist til Íslands. Hér ræður amerískt drasl ríkjum og þarf kvikmyndahátíðir til að hingað berist gæðamyndir. Þar er þó ein og ein undantekning eins og þýska verðlaunamyndin Líf annarra sem verið er að sýna í Háskólabíói.

Í dag las ég svo blogg Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu, mér til mikillar skemmtunar, en hún er að dunda við að skrifa ástarsögu í anda hinnar geisivinsælu Theresu Charles en bækur hennar voru gefnar út í skrautbandi árum saman upp úr miðri síðustu öld. Þetta er krassandi spítalasaga, glæsilegur skurðlæknir sem sturlar nánast allar konur sem nálægt honum koma. Það verður spennandi að sjá hver framvindan verður og hvort ástin sigrar að lokum. Það verður að teljast líklegt. Svo er það líka spurning hvort Steinunn Ólína ætlar sér að slá Ellý út sem vinsælasti bloggarinn með krassandi sögu?

 


Lærðu að nauðga - eða burt með ofbeldið?

Mér varð illt í morgun við að lesa fréttina á baksíðu Morgunblaðsins um nauðgunarleikinn sem hægt er að nálgast á netinu. Enn ver varð mér við að heyra viðtalið við þann sem rekur netsíðuna. Nei, hann er ekkert hrifinn af þessu en svona er heimurinn. Heimurinn er vondur og við því er ekkert að gera. Hann ber enga ábyrgð og sér ekki að hann þurfi að gera neitt.

Það er verið að leika leik sem gengur út á athæfi sem er stórlega refsivert í íslenskum lögum (þótt dómstólar taki það nú reyndar ekki mjög hátíðlega). Nauðgun felur í sér líkamlegt ofbeldi og hefur mjög alvarlegar sálfræðilegar afleiðingar sem varað geta það sem eftir er lífsins. Það getur verið að erfitt sé að banna slíka leiki en svo mikið er víst að siðferðileg rök hrópa á þann sem rekur vefsíðuna að taka leikinn út nú þegar. Það er löngu kominn tími til að skera upp herör gegn því siðleysi og þeirri ofbeldisdýrkun sem alið er á alla daga í sjónvarpi (líka RÚV), kvikmyndum og á netinu.

Mikið af ofbeldinu beinist að konum. Það er sífellt verið að myrða og misþyrma konum, nú síðast í þessum tölvuleik. Ég tek undir það með Katrínu Önnu Guðmundsdóttur það er löngu tímabært að íslenskir karlmenn axli ábyrgð á karlaofbeldinu hér á landi og leggi okkur konum lið við að útrýma því, m.a. með því að hafna þessum tölvuleik og öðru ofbeldi og fá aðra karlmenn til að gera slíkt hið sama.

Við eigum ekki að ala drengi upp í ofbeldisdýrkun. Það bitnar á þeim sjálfum, öðrum drengjum, stúlkum, konum og samfélaginu öllu. Það er öllum í hag að kveða ofbeldið niður.

"Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Þessi orð Jesú Krists voru sögð í þeim tilgangi að ýta undir hið góða, ekki hið illa. Það mætti minna oftar á þau og einnig að það er skylda okkar að ganga til liðs við hið góða og hafna hinu illa. Ekki að yppta öxlum og gefast upp gagnvart því. 


Eign okkar eða ríki í ríkinu?

Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að Landsvirkjun teldi sig hafa rétt til að reisa Norðlingaölduveitu, hvað sem liði ummælum Ingibjargar Sólrúnar í gær um að sú umdeilda virkjun væri úr sögunni. Mér leist ekki á þau ummæli Geirs Haarde að stjórnarflokkarnir ættu eftir að koma sér saman um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Hann var að draga úr orðum Ingibjargar.

Árni Finnsson sagði fyrir nokkru að Landsvirkjun gæfist aldrei upp. Friðrik Landsvirkjunarforstjóri heimsótti Geir í dag og ætlar að ræða við Össur iðnaðarráðherra síðar. Hann er að reyna að tala þá til, svo að Landsvirkjun geti haldið áfram á sinni mjög svo umdeildu braut. Ég spyr: hvernig er það er Landsvirkjun ekki ríkisfyrirtæki? Er það ekki undir kjörinni stjórn? Þarf fyrirtækið ekki að fara að ákvörðunum stjórnvalda? Hvað eiga svona yfirlýsingar að þýða eins og að þeir hafi virkjunarrétt? Er ekki hægt að fella veitt leyfi úr gildi, taka ákvarðanir ríkisfyrirtækisins til baka? Ef ríkisstjórnin ákveður að stækka friðlandið þá á Landsvirkjun að virða það og ekki orð um það meir. 

Ég held að ef Landsvirkjun vogar sér lengra í Þjórsárverum og við Þjórsá, muni það kosta miklu meiri átök en kringum Kárahnjúkavirkjun. Það er nú þegar búið að ganga allt of langt í eyðileggingu á íslenskri náttúru. Ef nauðsynlegt er að virkja meira í þágu landsmanna verður að vanda valið og virkja þar sem eyðilegging verður allra minnst.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að marka framtíðarstefnu varðandi nýtingu orkulinda og reyna að ná sátt um virkjanakosti. Því miður virðist svo sem deilur haldi áfram enda ekki við öðru að búast ef menn ætla að hanga í stóriðjustefnunni. Næst verða það Þeystareykir og Reykjanesið. Ef ákveðið verður að byggja álver við Húsvík þýðir það gjörbreytta ásýnd landsins á stóru svæði í nágrenninu. Þar verður ekki aðeins reist verksmiðja heldur munu gríðarleg línustæði liggja um sveitir og byggja þarf gufuaflsvirkjun með öllu sem henni fylgir. það þýðir gufustróka, byggingar, affallsvatn, eiturefni, o.s.frv. Nei stríðinu er ekki lokið, það er rétt að byrja.

Er ekki kominn tími til að koma böndum á Landsvirkjun? Íbúar þessa lands eiga fyrirtækið og það getur ekki og á ekki að haga sér eins og stjórnendum þess sýnist, eins og ríki í ríkinu. Það verður að vinda ofan af stóriðjustefnunni og taka nýja stefnu. Möguleikarnir eru óteljandi, það er viðurkennt í nýja stjórnarsáttmálanum. Breytt stefna er eina lausnin til að koma á friði í landinu um náttúruverndarmálin.

Setjum Landsvirkjun í útrás. Nýtum þekkingu á orkuöflun í þágu fátækra þjóða, þó þannig að land sé ekki eyðilagt meira en brýna nauðsyn ber til. Við eigum að virkja og framleiða orku eftir þörfum okkar, en ekki til að laða að mengunariðnað og fórna íslenskri náttúru.    


Ný ríkisstjórn - konur eru þriðjungur ráðherra

Það er sannarlega ástæða til að óska þeim Ingibjörgu Sólrúnu, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með ráðherrastólana. Loksins komast fyrrverandi kvennalistakonur í ríkisstjórn. Vonandi fylgir sá arfur þeim í þeirra störfum. Ég vænti mikils af þeim en við eigum enn eftir að sjá stjórnarsáttmálann. Ég ætla svo sannarlega að vona að þær og aðrir ráðherrar taki nú rækilega til í jafnréttismálunum, ekki veitir af. Ég segi ekkert um atvinnu- og umhverfismálin fyrr en sáttmálinn verður birtur opinberlega.

Það eru velferðarmálin og að nokkru leyti atvinnu- og samgöngumálin sem koma í hlut Samfylkingarinnar, auk utanríkismálanna. Allt eru þetta mikilvægir málaflokkar en ég hefð viljað sjá menntamálin í þeirra höndum. Þetta virðist lítil breyting í verkaskiptingu frá fyrri stjórn en auðvitað eru trygginga- og öldrunarmálin risastórir málaflokkar. En, sjáum hvað setur.  

Ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins kemur hins vegar mjög á óvart. Aðeins ein breyting og aðeins ein kona. Þetta er ekki hægt. Af hverju í ósköpunum var tækifærið ekki nýtt til að gera fleiri breytingar og fjölga konum? Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir konur í flokknum. Þarna eru innanhúsmál á ferð sem ég botna ekkert í.

Við Íslendingar erum að verða skelfilega gamaldags með þessar endalausu karlastjórnir og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem viðheldur þeim. Meira að segja Frakkar eru með hlutföllin 8:7 að vísu körlum í hag. Konur og karlar eru að sjálfsögðu jafnmörg í sænsku ríkisstjórnni og í þeirri finnsku eru fleiri konur en karlar. Hvað þurfum við að bíða lengi eftir eðlilegu og lýðræðislegu jafnrétti kynjanna hér á landi?  

Hvað um það, ný ríkisstjórn er að hefja feril sinn og það verður mjög fróðlegt að sjá hverjar áherslurnar verða og hvernig henni vegnar. Samfylkingin hefur framsóknarvítin að varast.


Fréttir af frú Pritchard

það var fjör að venju hjá frú Prithcard í kvöld. Nú voru það umhverfismálin. Eftir árangurslítinn fund G-8 ríkjanna tók frú Pritchard af skarið og lýsti því yfir að Bretar myndu grípa til sinna ráða til að draga úr koltvísýringsmengun. Án nokkurs samráðs tilkynnti hún fréttamönnum að sérhver miðvikudagur frá og með 24. júní yrði bíllaus dagur. Fjármálaráðherrann (sem er þessi sem heldur við ungan aðstoðarmann sinn, hún er ekki utanríkisráðherra eins og ég hélt) var mjög óhress með þessa ákvörðun enda búin að láta vinna fjögurra ára áætlun (mjög hægfara) um að draga þannig úr loftmengun að efnahagslífið bæri ekki skaða af. Stjórnarandstaðan tætti hugmyndina í sig og spáði mótmælum og öngþveiti. En - það varð ekki aftur snúið og ríkisstjórnin varð að standa með sínum forsætisráðherra. Ekki batnaði skap ráðherra við að uppgötva að einmitt þann 24. júní yrðu aukakosningar í einu af vígjum íhaldsmanna. Ótti greip um sig í Downingstræti 10.

En ríkisstjórn frú Pritchard hefur ráð undir rifi hverju. Dömurnar ákváðu að fjölkvenna (í strætó) til kjödæmisins á kosningadag, á bíllausa deginum og beita öllum sínum töfrum (handaböndum, brosum og að kyssa litlu börnin) til að fá kjósendur á sitt band. Viti menn, það er ekki að spyrja að samstöðu Breta. Allir sem vettlingi gátu valdið gengu, hjóluðu eða tóku strætó eða lest í vinnuna. Aðeins nokkrir hópar bíleigenda mótmæltu og voru með múður. Að kvöldi dags og eftir góðan árangur lýstu fjögur Evrópuríki því yfir að þau myndu fylgja í fótspor Breta, þvert ofan í spár stjórnarandstöðunnar. Og konurnar unnu kosningarnar.

Hins vegar gengur mikið á í einkalífinu. Fjármálaráðherran er ólétt eftir aðstoðarmanninn. Eldri dóttir frú Prichard er í vondum málum og kom nú upp um föður sinn sem reyndist hafa komið að peningaþvætti fyrir fimmtán árum. Í næsta þætti sem er hinn síðasti reynir á hjónaband frú Prichard andspænis því embætti sem hún gegnir og eflaust koma upp ný mál til að fást við. Ég bíð spennt eftir endalokunum því í þessum þáttum birtast margar hliðar stjórnmálanna. Tryggð við hugsjónir og félagana eða blaður og fláræði. Að þora eða að hika. Fljótfærni og yfirlýsingagleði eða samráð, vilji til að sætta og leita lausna. Konurnar í stjórn frú Pritchard eru að læra að samstaðan er sterkasta vopnið.    


Glas af mjólk takk - skáldsaga um mansal

Einn þekktasti rithöfundur Noregs er skáldkonan Herbjörg Wassmo. Nokkrar bækur eftir hana voru þýddar á íslensku fyrir allnokkrum árum en ég hef ekki orðið vör við hana á bókamarkaðnum hér á landi um árabil. Hún skrifaði m.a. bókina Húsið með glersvalirnar og framhald hennar sem segir sögu ungrar stúlku sem verður fyrir kynferðislegri misnotkun og er auk þess barn þýsks hermanns. Wassmo var meðal fyrstu rithöfunda til að fjalla opinskátt um kynferðislega misnotkun á stúlkum og afleiðingar hennar enda vöktu bækur hennar mikla athygli og voru þýddar víða um heim. Nýlega var sagt frá því í fréttum að Norðmenn sem áttu þýska feður væru í málaferlum við norska ríkið vegna hrikalegrar meðferðar sem þeir sættu á barnsaldri. Sem börn voru sum hver sett á hæli og ofsótt á ýmsan hátt. Það er ótrúlegt hvernig var og er níðst á börnum. Það vorum við Íslendingar nýlega minnt rækilega á í umræðunni um Breiðuvík. Á þessu máli tók Herbjörg Wassmo á sínum tíma. Bækur hennar um Dinu nutu einnig mikilla vinsælda en ég held að þær hafi ekki veirð þýddar á íslensku. Ef ég man rétt skrifaði Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur greinar um Wassmo.

Nýlega kom út bók eftir Herbjörgu Wassmo sem hefur ekki aðeins vakið mikla athygli og fengið mjög góða dóma, heldur hrist upp í umræðunni í Noregi. Það er þegar búið að þýða hana á dönsku. Bókin heitir Glas af mjólk takk og fjallar um ungar stúlkur sem eru seldar mansali. Aðalpersónan er frá Litháen. Wassmo lagðist í mikla rannsóknarvinnu til að afla efnis og sá heimur sem hún kynntist tók svo á hana að hún varð beinlínis veik af ógeði og vanmætti. Wassmo fór í gegnum dómskjöl og fylgdist með málaferlum í Osló. Hún fékk ekki að ræða við stúlkurnar sem vitnuðu fyrir rétti og tekist hafði að bjarga, vegna þess að þær voru undir vernd yfirvalda en hún fylgdist vel með þeim.  Wassmo segir í viðtali að hún hafi orðið að minna sig á hverjum degi á að það væri aðeins hluti karlmanna sem keyptu aðgang að líkömum barna og kvenna og að það væru einnig konur sem kæmu að skipulagningu mansalsins.  

Bókin og umræðan um hana hefur þegar leitt til þess að norsk stjórnvöld hafa stóraukið aðgerðir til að draga úr mansali. Þessa bók ætla ég að panta "med det samme" en hún er nýkomin út hjá Lindhardt og Ringhof í Danmörku.


Listin að þegja

Ein mikilvægasta listgrein stjórnmálanna er að kunna að þegja. Hugsa sig um tvisvar áður en orð eru látin falla og láta reiði eða sárindi ekki hlaupa með sig í gönur. Sofa á vonbrigðunum. Það hefur verið ótrúlegt að horfa upp á reynda stjórnmálamenn missa sig hvað eftir annað í vanhugsuð orð og skrif undanfarna daga. Ég er hér að vísa bæði til Vinstri-grænna og Framsóknarmanna.

Það er ekki búið að mynda nýja ríkisstjórn þó að allt bendi til að stjórn Samfylkigngar og Sjálfstæðisflokks fæðist á næstu dögum. Á meðan á viðræðum stendur eiga menn ekki að loka leiðum og setja fram samsæriskenningar, heldur bíða átekta og skoða alla möguleika. Nú síðast skrifaði Ögmundur grein í Blaðið sem er aldeilis ótímabær. Ég er viss um að bæði VG og Framsóknarmenn hafa einhver svör við þessum athugsemdum mínum en mig langar að minna á að skilaboðin sem fara út til kjósenda þessa dagana geta reynst afdrifarík.

Þegar Kvennslistinn var á hátindi vinsælda sinn 1987-1988 voru myndaðar ríkisstjórnir í tvígang. Í fyrra skiptið stóð Kvennalistinn fast á kröfu sinni um lágmarkslaun og hlaut fyrir miklar vinsældir um sinn. Í síðara skiptið snérist fjölmiðlaumræðan Kvennalistanum mjög í óhag og það varð dýrkeypt. Það var alveg sama hvað sagt var, skilaboðin voru: þær þorðu ekki, þær vildu ekki axla ábyrgð. Stjórnarþátttaka var aldrei inni í myndinni í alvöru. Það verður því fróðlegt að sjá hvaða afleiðingar þessir dagar eiga eftir að hafa, einkum fyrir VG sem fær nú miklar skammir. Mogginn hamast á Steingrími og það mátti heyra í umræðunni á RÚV í morgun að kenning hans hefur hlotið hljómgrunn.

Reyndar minnir atburðarás vikunnar mjög á það sem gerðist bæði 1991 og 1995. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hélt velli en Alþýðuflokkurinn kaus að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum undir forystu Davíðs. Þetta var vorið sem ég settist á þing. Fyrrverandi ráðherrar Alþýðubandalags og Framsóknarflokks voru stjörnuvitlausir. Þeir létu öllum illum látum á vorþinginu en eftir það sá ríkistjórnin um að kynda undir átökum með mjög umdeildum aðgerðum og niðurskurði í velferðarmálum. Þetta var á þeim árum þegar orðið kostnaðarvitund var í tísku og nú skyldi fólk borga hluta af því sem áður var greitt með sköttum okkar. Árið 1995 var samið á bak við tjöldin og ný stjórn varð til. Það hafði mikið gengið á á kjörtímabilinu. Einn ráðherra Alþýðuflokksins sagði af sér, flokkurinn raðaði pótintátum sínum á ríkisjötuna og einn ráðherrann var kenndur við fíl í postulínsbúð. Já, það gekk mikið á en Alþýðuflokksmenn voru nokkuð fljótir að jafna sig.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Samfylkingin er hvorki Alþýðuflokkurinn né Alþýðubandalagið. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr stjórnarviðræðunum en ekki lýst mér á yfirlýsingar um einfaldan stjórnarsáttmála. Það þýðir vænanlega: að því skal stefnt að þetta og hitt verði gert á kjörtímabilinu án nánari útfærslu. Að mínum dómi er þörf á aðgerðaáætlunum í mörgum málum, t.d. jafnréttismálum. Hvernig og á hve löngum tíma verður launamisréttinu útrýmt. Hversu miklir peningar verða settir í aðgerðaáætlunina gegn kynbundnu ofbeldi og hvenær? Ákvæði verði í sáttmálanum um að nýja jafnréttisfrumvarpið fari í gegn, lög verði sett um jafna skipan kynjanna í stjórnir og ráð sem gildi um allan vinnumarkaðinn og síðast en ekki síst stóraukin framlög í jafnréttismálin almennt þar með talið til Jafnréttisstofu og kynjarannsókna.

Það sama þyrfti að gera í öðrum málaflokkum, t.d. hvað varðar hjúkrunarrými og stóriðjustoppið sem verður að nást samkomulag um. Það er mikið í húfi fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu og vonandi að hún og hennar fólk gleymi sér ekki í valdadraumum. Árangurinn í þessari ríkisstjórn á eftir að skipta Samfylkinguna sköpum.        


Þýðandi óskast

Ég er að leita að góðum þýðanda úr íslensku yfir á ensku en það er ekki hlaupið að því að finna slíkt fólk. Ég þarf að láta þýða greinina mína um kvennaráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og áhrif þeirra á Íslandi (SAGA 2:2006). Eftir nokkra eftirgrennslan komst ég að því að eftirspurn er þvílík eftir enskukunnáttu að þeir sem yfir henni búa er að drukkna í vinnu. Bankarnir ráða til sín enskumælandi fólk og alls konar verkefni hrannast upp á enskumarkaðnum. Þetta er mjög athyglisvert. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fremur en því að bankarni bíða við dyrnar eftir útskrifuðum verkfræðingum. Þeir búa yfir þekkingu sem nýtist vel í fjármálaheiminum.  

Boðskapurinn er: það eru miklir möguleikar fyrir þá sem leggja fyrir sig ensku (eða eru enskumælandi frá blautu barnsbeini) og verkfræði er toppgrein. Við hin höldum bara okkar striki held ég en það er vert að vekja athygli á þessari þróun.


Er Reykjavík ógeðsleg?

Ingólfur Margeirsson sagnfræðingur og rithöfundur skrifaði grein í Moggann í gær sem endaði á því að Reykjavík væri beinlínis ógeðsleg borg en áður hafði hann lýst því hvað hún væri óskipulögð og skítug.

Ég get tekið undir margt í skrifum Ingólfs en finnst hann þó taka býsna stórt upp í sig. Það er rétt að Reykjavík er ein allsherjar tyggjósletta. Allar gangstéttar hvítdröfnóttar. Það er eins og borgin hafi orðið fyrir loftárás á sunnudagsmorgnum. Glerbrot og drasl út um allt, tré brotin eða rifin upp með rótum, ruslafötur rifnar niður og þannig mætti áfram telja. Veggir útkrotaðir. Hvaðan kemur þessi vandalismi? Það þarf að taka sterklega á uppeldi Íslendinga og innræta fólki virðingu við umhverfið og eignir okkar allra. Hversu stór hluti skattpeninga okkar Reykvíkinga fer í stöðugar viðgerðir og tiltekt?

Fyrir nokkrum dögum fékk ég heimsókn frá jafnréttisnefndinni í Helsinki. Þau spurðu mig m.a. hvort alkóhólismi væri mikið vandmál á Íslandi. Þau höfðu verið á rölti að kvöldlagi um miðborgina og rekist þar á nokkra illaútlítandi og öskrandi menn sem létu svo dólgslega að þau forðuðu sér. Þetta er til skammar. Ég vísa líka til pistils sem ég skrifaði fyirr nokkru um ástandið á Laugaveginum. Borgarstjórnin þarf að taka á þessu ástandi og það STRAX.

Ég vil þó bera blak af borginni okkar. Einn góðviðridaginn fyrir skömmu lá leið mín eftir Tjarnargötunni í átt að miðbænum. Á undan mér gekk hópur af Ítölum og mundaði myndavélar. Þegar þau komu að leikskólanum Tjarnarborg opnaðist útsýni yfir Tjörnina og Þingholtin milli húsa. Þau hrópuðu yfir sig enda var fegurðin engu lík. Spegilslétt vatnið, glampandi sól, skafheiður himinn, tré að springa út og gömlu húsin við Fríkirkjuveginn blöstu við í allri sinni litadýrð. Ég var verulega stolt. Þannig ætti borgin öll að vera. Okkur til sóma og ánægju.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband