16.5.2007 | 16:15
Heimur fatlaðra
Það er svo merkilegt að upplifa hvernig hægt er setja hluti í nýtt samhengi og opna augu. Í gær hlustaði ég á fyrirlestur Rosmarie Garland-Thomson sem hún kallaði Óvenjulega líkama. Hún fjallaði einkum um það hvernig fatlað fólk hefur birst í dægurmenningu okkar og hvaða breytingum mynd þeirra hefur tekið.
Orðin sem við notum til að lýsa fólki og fyrirbærum skipta miklu máli. Við eigum ekki að nota niðurlægjandi orð um fólk. Ég tók eftir því hve Rosmarie vandaði orðaval sitt. Hún talaði t.d. um fólk með vaxtarörðugleika (þýðing mín) í stað þess að tala um dverga. Ég er illa að mér í þeim orðum sem notuð eru í heimi fatlaðra og vona að ég móðgi engan þótt ég noti orð eins og dvergur. Það er ekki illa meint enda afar gamalt og notað um hluta hins forna norræna goðaheims á jákvæðan hátt sbr. það að vera dverghagur. Ég er svo sannarlega reiðubúin til að endurskoða orðaval mitt því ég vil sýna öllum virðingu.
Rosmarie byrjaði á því að nefna að ein algengasta birtingarmynd fatlaðra í opinberu rými væri af betlurum á götum úti. Þetta kannast þeir við sem gengið hafa um erlendar stórborgir en sem betur fer er slíkt fátítt hér á landi. Á 19. öld voru ákveðnir hópar fatlaðra notaðir sem sýningargripir og þekkjum við Íslendingar nokkur slík dæmi, t.d. Jóhann risa (var hann fatlaður, það er spurning, hann var í það minnsta "öðru vísi"). Ólöf dvergur er annað dæmi en reyndar villti hún á sér heimildir og þóttist vera Grænlendingur svo sem frægt er. Síamstvíburar voru vinsælir í sirkusum, sem og handalausir, dvergar, skeggjaðar konur, karlar með brjóst, tvíkynjað fólk og þar fram eftir götunum. Dvergar voru vinsælir skemmtikraftar hjá konungshirðum fyrri alda.
Á stríðstímum fjölgar fötluðum mjög, hermenn missa iðulega útlimi eða lamast og eru af þeim margar sögur. Það má t.d. nefna eiginmann Lady Chatterley í skáldsögu D.H. Lawrence að ekki sé minnst á ótal ritverk um geðfatlaða. Nú til dags verður fjöldi barna fyrir skaða við að stíga á jarðsprengjur og almennir borgarar særast í loftárásum.
Það er sem betur fer löngu liðin tíð að fatlað fólk sé sýningargripir og ég ætlaði að skrifa lokaðir inni en ég efast reyndar mjög um að hætt sé að loka fatlaða inni. Of margar slíkar sögur hafa komið fram á undanförnum árum. Ég sá t.s. sjálf óhugguleg geðveikrahæli á Balkanskaga þegar ég vann í Kósóvó og geðveikt fólk lokað inni í fangelsum án viðeigandi meðferðar.
Staða og ímynd fatlaðra hefur breyst mjög til batnaðar víða um heim. Nú til dags hafa fatlaðir eignast sína talsmenn, baráttusamtök og hetjur. Rosmarie minntist m.a. á leikarann Christopher Reeve og fleiri leikara og listamenn. Þá hefur íþróttaþátttaka fatlaðra gefið stórkostlega mynd af öllum þeim fjölbreytileika og hæfileikum sem fatlaðir búa auðvitað yfir. Þar eigum við miklar hetjur ekki síst sunddrottningarnar margverðlaunuðu.
Það er þó margt að skoða í heimi fatlaðra eins og við vitum vel hér á landi þar sem stórum hópi fatlaðra býðst ekki vinna við hæfi og er gert að lifa við fátækt. Við eigum enn eftir að gera upp við ofbeldi gegn fötluðum, þar með talið kynferðislegt ofbeldi og einangrun þeirra og útskúfun um aldir. Virðum margbreytileikann og leyfum hæfileikum fatlaðra að njóta sín eins og allra annarra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 15:29
Íhaldssamur leikhúsheimur
Ólíkt höfumst vér að. Meðan Íslendingar fækka konum á þingi, auka Svíar framlög til jafnréttismála og leggja áherslu á að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum, nú síðast í menningarheiminum. Þótt Svíar teljist mesta jafnréttisþjóð í heimi er enn mikið verk að vinna.
Þær Lena Adelsohn menntamálaráðherra og Nyamko Sabuni jafnréttisráðherra skrifuðu saman grein í Dagens Nyheter í gær þar sem þær lýstu fyrirhuguðum aðgerðum til að ráðast gegn þeirri íhaldssemi sem ríkir í sænskum leikhúsheimi. Það á að setja tæpar 60 milljónir íslenskra króna í sértækar aðgerðir.
Nýlega lagði jafnréttisnefnd sænska ríkisins fram álit um stöðuna í leikhúsunum þar sem bent er á afturhaldssöm viðhorf sem þar ráða ríkjum og að mikið sé um kynjamismunun og kynferðislegt áreiti. Konur stjórna barnaleikhúsum og setja upp barnasýningar, kalar eru í stóru leikhúsunum. Því ofar sem störður eru í kerfinu, því fleiri karlar, þótt konum hafi reyndar fjölgað. Verkefnavalinu er stjórnað af körlum. Því meiri peningar og athygli, því fleiri karlar.
Ráðuneyti mennta- og jafnréttismála eru að undirbúa aðgerðir sem lista- og jafnréttisstofnanir eiga að fylgja eftir. Þriðja hvert ár ber þeim að leggja fram úttekt á stöðu mála, fylgjast með árangri aðgerða og greina vandann. Þessar úttektir gegna þeim tilgangi annas vegar að gefa stjórnmálamönnum tæki til að fylgjast með leikhúsheiminum og hins vegar að vera aðhald að leikhúsunum sjálfum.
Milljónunum sextíu verður skipt í tvennt og fara þrjátíu milljónir til stuðnings hvetjandi jafnréttisaðgerðum innan leikhúsanna hinar þrjátíu milljónirnar eiga að fara til aðgerða samtaka innan menningargeirans. Jafnframt beina þær stöllur þeim tilmælum til kvennasamtaka og annarra sem sinna kynjajafnrétti að beina sjónum að menningarmálum, þar sé pottur brotinn.
Hvenær ætli við sjáum aðgerðir af þessu tagi á Íslandi? Jafnréttislög ná nefnilega til ALLRA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 21:28
Vandræði hjá frú Pritchard
Fyrir nokrum vikum skrifaði ég pistil um stjórnvarpsþættina The Amazing Mrs. Pritchard sem er verið að sýna í danska sjónvarpinu á mánudagskvöldum. Í gærkvöldi var sýndur fjórði þáttur og eru nú tveir eftir.
Sagan segir frá frú Pritchard sem blöskraði svo staða stjórnmála í Bretlandi að hún ákvað að bjóða sig fram. Á örskömmum tíma varð til stjórnmálahreyfing sem felldi stjórn Tony Blair. Myndin var gerð á síðasta ári löngu áður en ljóst var hvenær Brown tæki við af Blair. Frú Prithcard myndaði ríkisstjórn sem eingöngu konur sitja í. Í þættinum í gærkvöldi var ár liðið frá valdatökunni og margt hafði gerst. Bygging nýja þinghússins var komin í gang en ríkisstjórn kvennanna ákvað að flytja þingið frá London og spillingunni þar. Konurnar eru að takast á við ýmis mál, t.d. sprakk flugvél yfir London í þessum þætti með tilheyrandi spurningum um hryðjuverk. Í þessum þætti voru það þó einkum spilling og skandalar sem komu við sögu, mjög í anda breskra stjórnmála. Það er nefnilega ekki nóg að forsætisráðherrann sé heiðarlegur aðrir verða að vera það líka.
Málum háttar svo í ríkisstjórn frú Pritchard að utanríkisráðherrann heldur við ungan aðstoðarmann sinn, reyndar eru þau bæði á lausu en nokkur aldursmunur á þeim. Þar stefnir í fjölmiðlafár. Aðstoðarheilbrigðisráðherrann lenti úti á galeiðunni eftir að hafa fengið tilkynningu um skilnað frá eiginmanninum og var ljósmynduð í bak og fyrir í heldur óheppilegum stellingum. Fjölmiðlaskandall þar. Eiginmaður forsætisráðherrans er í vondum málum (ég missti af þriðja þætti og veit því ekki hvað það er, en glæpsamlegt er það). Undir lokin kom svo í ljós að ein helsta stuðnings- og peningakona hreyfingar frú Pritchard hefur borið fé á þingkonur Verkamannaflokksins til að fá þær til liðs við frú Pritchard. Aðstoðarkona forsætisráðherrans sem hefur ráð undir rifi hverju stendur frammi fyrir miklum vanda sem getur kostað ríkisstjórnina afsögn, rétt eftir að tekist hafði að bjarga stjórninni út úr slæmri klípu vegna reglna Evrópusambandsins sem hafði verið hleypt í meðvitunarleysi gegnum þingið.
Allt minnir þetta á þau vandamál sem stjórn Blair hefur glímt við og reyndar fyrri stjórnir. Valdið spillir sumum og það er með ólíkindum hvernig fólk, einkum karlar, sem barist hafa fyrir frama í stjórnmálum árum saman falla á framhjáhaldi, vændiskaupum og mútum. Það verður spennandi að sjá hvort frú Pritchard og liði hennar tekst að bjarga málum. Í þessum þáttum er verið að beita viðsnúningi hlutverka, setja konur í stöðu sem þær komast sjaldan í. Það verður gaman að sjá hvernig þær koma út úr stjórnmálaþátttökunni og hver boðskapurinn er þegar upp verður staðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 20:15
Veður til að trúlofast
Ég skellti mér í Vesturbæjarlaugina síðdegis til að synda úr mér þunglyndið. Það er sama við hvern ég hef talað í dag, svartsýnin og vonbrigðin eru alls ráðandi í mínum kreðsum. Ég heyrði nokkrar yfirlýsingar um flutning úr landi. Ég veit nú ekki hvort af því verður. Þar sem ég teygði mig við sundlaugarbakkann í sólinni og horfði á börnin leika sér með gleðibrag rifjaðist upp fyrir mér saga af séra Halldóri Kolbeins sem var prestur í Vestmannaeyjum þegar ég var barn. Hann var afar hrifnæmur maður og tilfinningaríkur og komst oft skemmtilega að orði. Af honum eru margar sögur og hann er talinn ein af fyrirmyndunum að séra Jóní Prímusi í skáldsögunni Kristnihald undir Jölkli eftir Halldór Laxness. Þessir tveir Halldórar voru góðir kunningjar.
Dag einn var Halldór Kolbeins á gangi í Vestmannaeyjum á blíðviðrisdegi og þeir eru margir í Eyjum. Þar sem hann gekki í blíðunni sá hann strák og stelpu koma gangandi á móti sér. Þegar þau mættust breiddi hann út faðminn og sagði: Ja, nú er veðrið til að trúlofast. Unga fólkið roðnaði og hrökk í sundur enda trúlofun ekki á dagskrá. Ég gríp oft til þessa orðatiltækis þegar náttúran skartar sínu fegursta.
Það var verður til að trúlofast síðast liðinn laugardag í það minnsta hér sunnanlands og alls staðar á landinu í óeiginlegri merkingu. Íslendingar fengu bæði veður og tækifæri til að skapa ný sambönd en kusu að framlengja gamalt og þreytt pólitískt hjónaband. Eins og málin standa nú er alls óvíst hvort nokkur trúlofar sig í blíðunni þessa daga.
Ég segi líkt og dómkirkjupresturinn í Íslandsklukkunni: það er löngu kominn tími til að binda enda á þessa hjónabandsnefnu sem er til hneykslunar öllu góðu fólki í landinu. Reyndar er stór hópur kjósenda ekki sammála mér því miður. Enn er þó tækifæri til að skapa nýtt, enn er veður til að trúlofast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 15:48
R-listafólk og framsóknarkonur
Ég hef verið að rýna í kosningaúrslitin og þar er margt merkilegt að skoða. Til að mynda er athyglisvert að sjá hvernig R-listafólkið úr borgarstjórninni er að skila sér inn á þing. Ingibjörg Sólrún kom inn á síðasta kjörtímabili og nú bætast þau vð Árni Þór og Steinunn Valdís. Reyndar má einnig telja Katrínu Jakobsdóttur og Álfheiði Ingadóttur til R-listafólks en báðar komu að starfi Reykjavíkurlistans um árabil.
Annað sem hefur vakið athygli mína er að í erfiðleikum Framsóknar eru það konurnar sem standa sig best. Valgerður Sverrisdóttir kemur lang best út og Siv Friðleifsdóttír komst inn að lokum og bjargaði þar með því sem bjargað varð fyrir Framsókn á höfuðborgarsvæðinu.
Enn eitt sem vekur athygli er að þótt nokkuð sé um ungt fólk sem bætist við þá er enginn sem talist getur mjög ungur og þá á ég við rétt um tvítugt. Á síðasta kjörtímabili kom inn mjög ungt fólk, ef ég man var sá yngsti 23 ára. Mér sýnist að þeir sem eru að koma nýir inn séu svona á bilinu frá þrítugu og upp í sextíu og eitthvað. Það verður fróðlegt að skoða þetta nánar þegar frekari upplýsingar eru komnar fram. Ef allt er eins og best verður á kosið á dreifing aldurs og kyns að vera sem jöfnust. Allar raddir eiga að heyrast. Ef betur er að gá sýnist mér 68-kynslóðin enn hafa tögl og hagldir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 13:54
Hlutur kvenna stendur nokkurn veginn í stað
Ég verð að gera smá leiðréttingar á pistlinum sem ég skrifaði í morgun. Ég fór aftur yfir tölurnar eftir að hafa hlustað með undrun á Ólaf Harðarson halda því fram að hlutur kvenna hefði batnað í þessum kosningum og að þær mættu vel við una. Því er ég gjörsamlega ósammála. Staðan er óbreytt miðað við fjölda kvenna undir lok kjörtímabilsins en aðeins skárri miðað við kosningarnar 2003.
Í kosningunum 2003 fækkaði konum úr 36,5% í 30%. Það þóttu mikil og vond tíðindi. Því miður eru þau að endurtaka sig að þessu sinni. Á kjörtímabilinu fjölgaði konum aðeins aftur vegna þess að karlar héldu til annarra starfa. Í kosningunum núna náðu 20 konur kjöri eða 31.7%. Þetta er ömurleg staða. Við virðumst vera við einhvern þröskuld sem erfitt er að komast yfir. Konurnar koma lang flestar af suðvesturhorninu. Það er engin kona í Norðvesturkjördæmi eins og reyndar var fyrirséð.
Í kosningabaráttunni voru afrek Íslands tíunduð á alls kyns listum yfir bestu þjóðir heims í hinu og þessu. Þegar kemur að hlut kvenna á þjóðþingum er ekki lengur af miklu að státa á heimsvísu. Mér sýnist að við munum verða í 14 sæti á heimslista Alþjóða þingmannasambandsins, nokkuð fyrir neðan hin Norðurlöndin.
Ef við skoðum hinar Norðurlandaþjóðirnar þá er Svíþjóð í öðru sæti en þar er hlutur kvenna 47,3%, Finnland kemur næst með 42.0%, þá Noregur með 37,9% og loks Danmörk með 36.9%.
Ég held að við þurfum að herða umræðuna um kvóta og fléttulista. Þessi lýðræðishalli er óþolandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 13:38
Allir töpuðu nema Sjálfstæðisflokkurinn
Þetta var nú meiri nóttin. Þegar ég fór að sofa var stjórnin fallin og ég trúði því að bilið myndi aukast stjórnarandstöðunni í vil. Þegar ég vaknaði hélt stjórnin velli. Hvað gerist nú?
Það er mín tilfinning að allir hafi tapað nema Sjálfstæðisflokkurinn. Hann stendur eftir með pálmann í höndunum og getur valið sér samstarfsaðila. Vinstri grænir voru í mikilli sókn í allan vetur en eitthvað gerðist síðustu vikurnar. Ég held að VG fólk hafi vænst mun betri útkomu og það eru mikil vonbrigði að Guðfríður Lilja skyldi ekki komast að. Það er skaði fyrir alla feminista og kvenfrelsisbaráttuna. Samfylkingunni tókst að vinna sig upp úr mikilli lægð en situr uppi með töluvert tap og tveimur færri þingmenn. Fjálslyndir halda nokkurn vegin sínu en í þeirra hópi er Jón Magnússon sem ómögulegt er að reikna út. Framboð Íslandshreyfingarinnar tókst ekki að öðru leyti en því að hún ásamt VG hélt stóriðjuumræðunni vakandi. Af því sem ég hef heyrt í morgun í fjölmiðlum er ljóst að þeim verður kennt um að hafa haldið lífi í ríkisstjórninni.
Aðaltapið felst í því að ekki tókst að fella ríkisstjórnina. Það eru vonbrigði sem kalla á djúpa greiningu á íslensku samfélagi. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig eftir 16 ár í ríkisstjórn og allt það sem á hefur gengið á kjörtímabilinu. Það er vægast sagt stórmerkilegt en ég held að skýringarnar felist í fyrsta lagi í rótgróinni hægri stefnu sem hamrað hefur verið á í áratugi, í öðru lagi í því að flokkurinn er löngu búinn að byggja upp ímynd sigurvegarans, þeirra sem fljóta ofan á, þeirra sem valdið hafa og það er mun betra að vera þeim megin í lífinu. Í þriðja lagi teygir valdakerfi hans anga sína í allar áttir, inn í skóla og verkalýðsfélög og um allt sjtórnkerfið. Fólk heldur tryggð við flokkinn og á mikið undir honum. Meira að segja Jóhannes í Bónus trúir á flokkinn eftir allt sem hann og hans fjölskylda hefur mátt þola af útsendurum kerfisins. Merkilegt.
Það væri afar sérkennilegt ef Framsóknarflokkurinn sæti áfram í stjórn eftir að hafa fengið skýr skilaboð frá kjósendum um hið gagnstæða. Það væri óviturlegt af Sjálfstæðisflokki að halda áfram á sömu braut með samstarfsflokki í sárum og gagnrýni kjósenda á Framsókn. Það heyrðist víða undanfarnar vikur hvort fólk væri í raun að kjósa Framsókn með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er pólitískt mjög mikilvægt fyrir Samfylkinguna og einkum þó Ingibjörgu Sólrúnu að komast í stjórn en hvers konar stjórn yrði það? Það er ekki gott að segja en það er mikil þörf fyrir nýja vinda og vendi. Möguleikar VG virðast minni, þeir yrðu í stöðu lítils flokks við hlið risans og naumur meirihluti, en hver veit?
Nú er eins gott að leggja eyrun við og lesa milli línann og orðanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 10:31
Með sorg í hjarta
Prestar hafa málfrelsi eins og annað fólk sem byggir þetta land. Þeim ber þó fremur öðrum að hafa í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Í morgun birtist grein í Mogganum eftir sr. Davíð Baldursson sem þjónar Fjarðabyggð. Grein hans fyllti hjarta mitt djúpri sorg.
Í greininni færir klerkurinn þeim þakkir sem stóðu fyrir bygginu álversins á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun. Hann lýsir því hvernig gleðin og bjartsýnin skín úr augum Austfirðinga. Þar hafa orðið umskipti. Það efast enginn um að nú um stundir er mikil atvinna og uppgangur á Austurlandi. Hversu lengi verður það? Hverjir munu vinna í álverinu? Eru Íslendingar að fjölmenna austur á land? Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru þeir þvert á móti að flytja í burtu. Það er erlent vinnuafl sem er að baki fjölgunar íbúa. Flestir þeirra munu fara aftur heim. Nýleg könnun Samtaka atvinnulífsins sýnir að ungir Íslendingar ætla sér ekki að vinna í álverum. Og enn einu sinni bendi ég á þá áherslu að fólk úti á landi eigi að vinna í verksmiðjum meðan við hér á suðvesturhorninu verðum í hálauna- og stjórnunarstörfunum. Þvílík framtíðarsýn.
Athafnagleðin er dýru verði keypt og hún hefur valdið djúpum sárum og deilum meðal Íslendinga, líka Austfirðinga. Ég er sannfærð um að í framtíðini verði Kárahnjúkavirkun talin til verstu umhverfisglæpa. EKKERT réttlætir þá eyðileggingu á náttúrunni sem þar fer nú fram.
Ég átti þess kost í fyrrasumar að ganga í fimm daga um Kárahnjúkasvæðið. Upp og niður með Jöklu. Inn á Eyjabakkana og Kringilsárrana og um svæðið kringum stífluna hrikalegu. Ég veit því nákvæmlega hverju er verið að fórna. Mikið gróðurlendi fer undir vatn, auk fossa og fljóta. Mér finnst það ófyrirgefanleg gjörð.
Austfirðingar eiga margvíslega möguleika til atvinnusköpunar eins og aðrir landsmenn. Þeir geta haldið áfram að byggja upp ferðamannaiðnað og alls konar framleiðslu og þjónustu honum tengda. Þeir geta byggt upp menningar- og sköpunarhagkerfi sem veitir mörgum störf. Þeir geta lagt rækt við fullvinnslu sjávarafurða í stað þess að láta stóriðjuna drepa sjávarútvegsfyrirtækin. Þeir ættu þó fyrst og fremst að byggja upp mennta- og rannsóknarsetur, því það eru þau sem munu fæða af sér fyrirtæki byggð á þekkingu og möguleikum svæðisins. Menntun og aftur menntun. Það er svarið ekki mengun og eyðilegging.
Þetta mætti sr. Davíð hugleiða í stað þess að dásama þá sem vilja keyra áfram veginn sem er að eyðileggja jörðina okkar, sjálft sköpunarverkið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2007 | 10:07
Vorið er komið...
Ég vaknaði í morgun, daginn fyrir kosningar, við það að stærðar hunangsfluga stakk sér inn um gluggann og fór eins og njósnaflugvél í lágflugi hring um herbergið. Hún suðaði hátt og lét ófriðlega. Þegar hún hafði komist að því að ekkert girnilegt var að hafa hjá mér réðist hún á gardínuna, enn með háu suði, lét sig falla og fann þá leið að glerinu. Eftir að hafa flogið margsinnis geðvonskulega á glerið áttaði hún sig loks á því hvar hægt var að komast út og kvaddi mig án frekari afskipta af mér og mínu. Ég held að hún hafi verið í geðvonskukasti. Hún vaknaði eflaust af vetrardvala í hlýindunum um daginn og hélt að sumarið væri komið. Svo kólnaði og hvað getur hunangsfluga þá gert annað en flogið um og suðað í skapvonsku sinni.
Aðrir vorboðar voru hins vegar í hátíðarskapi í morgun og létu sér skoðanakannanir í léttu rúmi liggja. Sólin skein og fuglasöngurinn var glaðvær og margradda. Ég heyrði í fréttum RÚV í morgun að söngfugl Evrópu hefði brugðið sér í heimsókn með sunnanvindunum og heiðaði nú garðeigendur með nærveru sinni og fögrum söng. Hann verður hér eftir talinn í röð Íslandsvina.
Vorið er alveg örugglega komið og vonandi blása vorvindar í stjórnmálunum eftir kosningarnar á morgun. Nýja ríkisstjórn, takk fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 22:32
Netið og kosningabaráttan
Það hefur vakið athygli mína hversu mikið netið er notað í kosningabaráttunni að þessu sinni. Umræðan er mun meiri en áður. Sennilega á fjölgun bloggara þar stóran hlut að máli. Á póstlista feminista hafa geisað miklar umræður um frambjóðendur og áherslur flokkanna í jafnréttismálum. Eftir nokkrar sviptingar varð niðurstaðan að mikiklvægast væri að fá sem flesta feminista á þing!
Fjöldi fólks bloggar og nú æða myndbönd og ýmis konar sendingar yfir netið. Á truno.blog.is er að finna myndband sem ungir jafnaðarmenn hafa tekið saman þar sem syndir ríkisstjórnarinnar eru rifjaðar upp svo sem stöðuveitingar, Falun Gong, Íraksmálið, fjölmiðlamálið, ummæli ráðherra og fleira í þeim dúr. Nú í kvöld fékk ég sent myndbandið "Geir og Jón fara á kostum í glænýju tónlistarmyndbandi". Slóðin er: http://www.youtube.com/watch?v=jI5lAeFyDhs
Náttúruverndarsinnar hafa dreift myndum á slóðinni: http://kjosa.is og nú er verið að vekja athygli á bloggi Indriða H. Þorlákssonar ríkisskattstjóra um stöðu skattamála á slóðinni:
http://inhauth.blog.is/blog/inhauth/entry/205454/
Það verður fróðlegt að skoða þessar aðferðir í kosningabaráttunni betur eftir kosningar því ljóst má vera að netið fær sífellt meira vægi sem tæki í hvers kyns umræðum manna á meðal. Það sem er svo athyglisvert er að á netinu talar alls konar fólk, það virkjar fljölda manns í lýðræðislegri umræðu (oftast) og þar ræður hin frjálsa umræða ríkjum. Lifi netið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)