Clinton hinn kvensami

Ég skellti mér í sund áðan í góða veðrinu. Á heimleiðinni hitti ég vinkonu mína sem var að koma frá Vínarborg. Þar bar helst til tíðinda að tveir tignargestir voru í heimsókn og settu mark sitt á mannlífið í borginni með öryggisgæslu og fjölmiðlafári. Annar var Pútín forseti Rússlands og var öryggisgæslan aðallega vegna hans. Hinn var Bill Clinton sem kominn var til Vínar til að afla fjár í þágu baráttunnar gegn alnæmi í Afríku.

Fjáröflunarsamkoma var haldin við höllina Schönbrunn sem var aðsetur keisaranna í Austurísk-Ungverska keisaradæminu þar til þeim síðasta var kurteislega sagt að hypja sig 1918. Clinton til halds og trausts var leikkonan Sharon Stone sem óneitanlega er afar glæsileg kona. Fjölmiðlum fannst þau skötuhjúin brosa ískyggilega mikið hvort til annars en eins og þeir minnast sem muna eftir valdatíð Clintons þá lék kvensemi forsetans fyrrverandi hann grátt.

Fjölmiðlar hundeltu Clinton og Stone og mynduðu í bak og fyrir. Forsíður voru undirlagar af fréttum af þeim með getgátusniði. Nú er bara að vona að Clinton hagi sér almennilega og fari ekki að eyðileggja fyrir Hillary konu sinni. Nýtt framhjáhalds- eða kynlífshneyksli gæti orðið henni dýrkeypt í þeirri baráttu sem framundan er um tilnefningu sem forsetaframbjóðandi fyrir hönd demókrata.

Hillary á þegar á brattann að sækja en ég er sannfærð um að fengur yrði að henni sem forseta, hún heldur fram allt öðrum gildum en bókstafstrúarliðið sem nú býr í Hvíta húsinu. En hún kemst aldrei þangað ef Bill lætur kvensemina stjórna sér.


Blair tættur í sundur

Jón Baldvin Hannibalsson eðalkrati skrifar athyglisverða grein í Moggann í dag þar sem hann rífur Tony Blair og stefnu hans í sig. Blair skrifaði nýlega grein í The Economist um þá lærdóma sem hann dregur af tíu ára valdaferli sínum. Hann hefur einkum lært það að hægri mönnum sé best treystandi fyrir verndun lýðræðisins (með hervaldi) og vinstri mönnum fyrir velferðinni.

Þessa niðurstöðu telur Jón Baldvin fráleita og er svo sannarlega hægt að taka undir það eins og ótal dæmi sanna. Í stað þess að standa vörð um frið og lýðræði og fara sáttaleiðir er búið að setja heiminn á annan endann á nokkrum árum og skapa nýjar hættur sem heimurinn á eftir að glíma við í áratugi.

Jóni Baldvin verður sérstaklega tíðrætt um fylgispekt Blair við Bush og stjórn hans og þær hrikalegu afleiðingar sem Írakstríðið hefur og mun hafa í Mið-Austurlöndum. Þá ræðir hann líka um aumingjalegar tilraunir Blair til að koma Palestínumönnum til varnar en Bandaríkjamenn hafa ekki hlustað á hann heldur styðja Ísraelsstjórn og halda ríkinu uppi hvað sem þeir brjóta af sér. Það þarf nú vart að minna á hvernig Bandaríkjastjórn brýtur mannréttindi á föngum og má í því sambandi minna á dóm sem féll vegna Kanadamanns sem var handtekinn 15 ára gamall í Afganistan og hefur verið í haldi síðan án dóms og laga. Réttindi barna eru ekki einu sinni virt!

Niðurstaða Jóns er sú að Blair hafi dregið Verkamannaflokinn niður í svaðið en í því sambandi má minna á að þrátt fyrir mikla andstöðu innan flokksins hefur Blair haft meirihlutann með sér. Það kemur flokknum nú í koll.

Ég furðaði mig mjög á því í aðdraganda Íraksstríðsins hvers vegna Bretar voru að láta draga sig út í Íraksfenið en bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Píslarvottar nútímans skýrði málið að nokkru. Írak er smíði Breta og þeir áttu og eiga enn mikilla hagsmuna að gæta á þeim slóðum. Bretar eru líka í olíuiðnaðinum og halda greinilega enn að þeir geti vaðið um heiminn með her sinn þótt það sé reyndar í skjóli USA.

Það verður mikið verk fyrir arftaka Blair að hreinsa upp skítinn eftir hann, takist það yfirleitt.


Frábær kvikmynd

Loksins lét ég af því verða í gær að drífa mig í bíó til að sjá þýsku myndina Líf annarra. Og þvílík mynd! Mig dreymdi Stasi í nótt.

Myndin lýsir ástandinu í Austur-Þýskalandi um miðjan níunda áratug síðustu aldar rétt áður en Gorbasjof koms til valda í Sovétríkjunum en austurblokkin hrundi eins og hún lagði sig nokkrum árum síðar.

„Litli“ en færi Stasimaðurinn fær það verkefni að fylgjast með pari, leikskáldi og leikkonu, ekki af því að þau séu grunuð um andóf gegn sæluríki sósíalismans heldur er ráðamaður að misnota vald sitt. Það á að finna eitthvað á leikskáldið. Í stuttu máli sagt gerist það sem ekki á að gerast, eftir því sem Stasimaðurinn kemst betur inn í líf listamannanna vaknar samúð hans, þau lifa því lífi sem hann á ekki kost á. Til þess að eyðileggja nú ekki myndina fyrir þeim sem þetta lesa og eiga eftir að sjá hana, segi ég ekki meira. Það er mjög margt sem kemur fram í myndinni um samfélagið, vald og valdaleysi, ástir og svik og hvernig gott fólk getur látið til sín taka.

Þarna er valinn leikari í hverju rúmi. Sebastian Koch leikur rithöfundinn en hann sást nýlega í ríkissjónvarpinu í hlutverki arkitektsins Albert Speer. Fyrir nokkrum árum var hann margverðlaunaður fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndunum um Mannfjölskylduna (Klaus Mann) og hann var líka verðlaunaður fyrir mynd um von Stauffenberg, þann sem stýrði tilraun til að myrða Adolf Hitler 1944. Martina Gedeck leikur leikkonuna en hún er ein virtasta kvikmyndaleikkona Þýskalands þótt ég kannist ekki við að myndir með henni hafi verið sýndar hér á landi. Svo er það loks Ulrich Mühe sem hefur hlotið verðlaun fyrir túlkun sína á Stasimanninum en mér er hann minnisstæður úr sjónvarpsmyndinni Nikolaikirche sem sýnd var fyrir nokkrum árum og fjallaði einmitt um mótmælin í Leipzig sem leiddu til þess að landamæraverðir opnuðu hliðin og múrinn féll.

Látið Líf annarra ekki fram hjá ykkur fara.


Kenningar um krabbamein

Ég lagði leið mína í Háskólabíó í dag til að hlusta á Jane Plant en hún hefur sett fram kenningar um tengsl mataræðis og vaxandi tíðni krabbameins. Jane Plant glímdi sjálf við brjóstakrabbamein og velti mikið fyrir sér orsökum þess að hún veiktist. Hún vann við rannsóknir í Kína og það vakti athygli hennar hve fátítt krabbamein var í því stóra landi en þar hefur til skamms tíma tíðkast allt annað mataræði en á Vesturlöndum, einkum byggt á hrísgrjónum og grænmeti. Amerísk ómenning er hins vegar að berast til Asíu eins og annarra heimshluta og það er eins og við manninn mælt, krabbameinstilfellum fjölgar.

Í stuttu máli sagt heldur Plant því fram að annars vegar sé fæði okkar allt of súrt og hins vegar að við séum að dæla í okkur alls kyns auka- og eiturefnum sem geta valdið krabbameini. Aðalsökudólgurinn er að hennar dómi allur sá mjólkurmatur sem við Vesturlandabúar neytum.  Eftir að hún veiktist var henni ráðlagt að borða jógúrt og hún veiktist að nýju. Eftir að hún hætti algjörlega að borða mjólkurmat, hvarf krabbameinið. Fleiri hafa sömu sögu að segja og meðal lærisveina hennar er dr. Oddur Benediktsson prófessor.

Það hefur lengi verið talið að samhengi væri milli lífsstíls og vaxandi tíðni krabbameins. Bent hefur verið á áhættuþætti eins og reykingar, mengun, geislun og slæmt mataræði, t.d. unnar matvörur. Plant bendir á að við séum alls ekki gerð til að þamba mjólk alla ævina og það sem verra er, nútímamjólk geldur fyrir áburð, hormóna, lyf og annað það sem kúnum er gefið. Plant sýndi mynd af breskum kúm sem búið er að rækta þannig að þær hafa nánast engin hold en gríðarleg júgur. Við vitum að umhverfi okkar er orðið mjög mengað og mjólkin fer ekki varhluta af því.

Hver eru ráðin? Jú, að draga sem mest úr neyslu mjólkurvara og alveg ef fólk veikist af krabbameini. Auka neyslu á lífrænu grænmeti, ávöxtum, baunum, sojaafurðum og hætta neyslu á nauta- og svínakjöti sem helst verður fyrir barðinu á ræktun og hormónagjöfum. Þá þarf vart að nefna nauðsyn þess að auka hreyfingu.

Því meira af ávöxtum og grænmeti í bland við hreyfingu og aðra hollustu, því betra.

Jane Plant hefur meðal annars skrifað bókina: Your Life in Your Hands: Understanding, Preventing and Overcoming Breast Cancer (2006).  


Helför gegn stúlkubörnum

Í nýútkomnu Læknablaði er að finna athyglisverða grein eftir læknana Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor, Linn Getz dósent og Anna Luise Kirkengen prófessor þar sem vakin er athygli á ábyrgð heilbrigðisstétta á þeirri markvissu eyðingu stúlkubarna sem á sér stað víða um heim, einkum þó í Kína og Indlandi. Nýjasta tækni sem m.a. kemur frá Vesturlöndum er notuð til að kanna kyn fósturs og eyða þeim í stórum stíl, reynist vera um kvenkyn að ræða.

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína árið 1995 var vakin athygli á þessari hrikalegu þróun sem tengist mismunandi mati á kynjunum og ýmsum menningarþáttum svo sem að viðhalda nafni ættarinnar (Kína þar sem aðeins má eiga eitt barn) og heimanmundi stúlkna (Indland), auk fátæktar. Árið 1995 var talið að í Kína væru 15 milljón fleiri karlar en konur. Fimm árum síðar var talan komin upp í 30 milljónir og síðasta talan sem ég heyrði var 50 milljónir. Í greininni í Læknablaðinu er nefnt að talið sé að talan sé samanlagt 80 milljónir í Kína og Indlandi.

Það hafa ekki allir efni á að láta greina kyn fósturs og því er næsta hörmungarstigið í helförinni að bera stúlkubörn út. Mér er minnisstæð grein og myndir í dönsku blaði fyrir nokkrum árum þar sem blaðamenn gengu fram á barnslík (stúlka) í rennusteini við götu í Peking. Þeir fylgdust með nokkra stund. Vegfarendur létu sem þeir sæju ekki líkið en loks tók einn sig til og henti því í ruslatunnu. Í Indlandi er töluvert um að stúlkubörn séu seld í verksmiðjuvinnu eða vændi. Fjölskyldurnar reyna að losa sig við stúlkurnar. Kynjamisréttið hefst í móðurkviði og það gengur erfiðlega að breyta viðhorfum, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir stjórnvalda.

Afleiðingarnar eru og verða margvíslegar. Milljónir karla eiga erfitt með að finna sér maka, vændi blómstrar sem aldrei fyrr og nú þegar er farið að bera á ránum á konum frá öðrum ríkjum. Konur ganga kaupum og sölum þótt ætla mætti að "verðmæti" þeirra myndi aukast. Kannski gerist það meðal hinna betur stæðu. Áhrif á vinnumarkað verða eflaust mikil til lengri tíma litið í ljósi hefðanna, t.d. hvað varðar umönnun barna og aldraðra. Skyldu synirnir taka þau störf að sér?

Það er rétt sem fram kemur í grein læknanna að heilbrigðisstéttir þurfa að vera meðvitaðar um þessa hljóðu helför og beita sér gegn henni. Það er ekki aðeins að við hér á Vesturlöndum séum að leggja til þekkingu og tækni heldur er ekki ólíklegt að margmenningarsamfélagið bjóði þeirri hættu heim að fólk komi með þennan hluta (ó)menningar sinnar með sér. Rétt eins og búið er að banna umskurð á stúlkubörnum með lögum á Íslandi, þarf að setja reglur sem koma í veg fyrir kynjamisrétti á fósturstigi.


Bókmenntaveisla

Í gær hófst lestur tveggja íslenskra skáldsagna á rás 1 í Ríkisútvarpinu, báðar endurteknar. Halldór Laxness hóf lestur Atómstöðvarinnar kl. 17.45 í Víðsjá og eftir kvöldfréttir byrjaði Þorsteinn Gunnarsson leikari sinn frábæra lestur á Drekum og smáfuglum eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Margar skáldsagna Halldórs Laxness voru mjög umdeildar á sínum tíma, engin þó eins og Atómstöðin sem var skrifuð á tímum mikilla þjóðfélagsátaka. Hún fjallar um norðanstúlkuna Uglu sem kemur til Reykjavíkur til að verða að manni og til að læra á orgel. Hún gerist stofustúlka hjá þingmanninum sínum sem er á kafi í samningum um herstöðvar og heima hjá honum ganga amerískir herforingjar um stofur. Allt annan heim er að finna hjá organistanum þar sem skáld, listamenn og portkona sitja löngum stundum og ræða lífið og tilveruna. Mörgum ráðamanninum fannst að sér vegið í sögunni en hún er einstök samtímalýsing auk þess hvað hún er bráðskemmtileg.

Saga Ólafs Jóhannes er síðasti hluti þríleiks um blaðamanninn Pál Jónsson, sveitamanns sem kemur til Reykjavíkur og kynnist þar hringiðu borgarlífsins í gegnum starf sitt á blaðinu Blysfara. Ísland er hernumið og Páll fylgist með því hvernig íslenskt samfélag fer á annan endann. Öllum gildum er snúið við hvert var þjóðin eiginlega að stefna?

Þríleikur Ólafs Jóhanns er tilraun til að ná utan um og lýsa þeim miklu breytingum sem urðu á íslensku samfélagi þegar heimskreppunni lauk og nútíminn hélt innreið sína fyrir alvöru með breskum og síðar bandarískum her. Hinn rólyndi Páll flækist fram og aftur um völundarhús spillingar og græðgi, ástar og svika og alls þess annars sem við sögu kemur. Þorsteinn gerir söguna einkar lifandi en ég verð að segja eins og er að það fór mjög í taugarnar á mér þegar ég las þessar sögur hve dauflegar og neikvæðar kvenpersónurnar voru. Þar var ekki ein einasta kona sem hafði eitthvað til málanna að leggja. Skrýtið því Ólafur Jóhann var kvæntur miklum kvenskörungi. En, ég ætla svo sannarlega að hlusta á báðar sögurnar.  


Oft er fjör í Eyjum, þegar fiskast þar

Það fer hrollur um þá sem alist hafa upp í sjávarplássum við að heyra tillögur Hafró um æskilegar veiðar á þorski á næsta fiskveiðiári. Verði farið eftir þeim þýða þær mikinn niðurskurð. En hvað er til ráða? Staða fiskistofna við Íslandsstrendur er greinilega afar viðkvæm hvort sem því valda ofveiðar eða breytingar í náttúrunni nema hvort tveggja sé.

Fyrir nokkrum dögum var sýnd heimildamynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem staða Íslands og Nýfundnalands var borin saman. Þorskstofninn við Nýfundnaland hrundi algjörlega eftir gengdarlausa ofveiði og eyjaskeggjar sáu sér ekki annað fært en að leita á náðir Kanadastjórnar sér til bjargar. Myndin gekk reyndar út á efasemdir um að það skref hefði verið rétt.

Þótt verulega hafi dregið úr þýðingu sjávarafla fyrir efnahagslífið hér á landi skapa fiskveiðar enn mikinn auð og ég trúi því að hann eigi eftir að aukast til muna ef okkur tekst að stunda sjálfbærar veiðar og leggjum miklu meiri áherslu á fiskeldi. Fiskur er afar mikilvæg uppspretta próteins og eins og við vitum er fátt hollara og betra en fiskur. Það getur því haft veruleg áhrif á framtíð okkar hvernig tekst að vinna úr vanda sjávarútvegsins.

Minn gamli heimabær Vestmannaeyjar fer ekki varhluta af vandræðunum. Það er slegist um fiskveiðikvótann og öflugustu fyrirtækin í landinu reyna að komast yfir sem mest meðan plássin reyna að verjast. Staður eins og Vestmannaeyjar er mjög háður sjávarútvegi en það er um leið vandi bæjarins, því fólk flýr einhæfni og vill fjölbreytni. Það er því brýnt að leita fleiri leiða sem bæði  tengjast matvælaframleiðslu en einnig öðru eins og þekkingariðnaði og ferðamennsku þar sem möguleikarnir væru ómældir ef samgöngur væru betri. Þar með er ég ekki að mæla með neðansjávargöngum. Mér finnst þau heldur varasöm á þessu virka gosbelti.

En það er því miður ekki bara úr sjávarútvegi sem berast vondar fréttir frá hinni fögru Heimaey.  Kvennahandboltinn sem hélt uppi heiðri íþróttastarfs í Eyjum um árabil er í andaslitrunum og sama máli gegnir um kvennafótboltann. Karlaliðið í fótbolta má muna fífil sinn fegri og keppir nú í 1. deild. Allt hefur þetta áhrif á andrúmsloftið og lífsgæðin. Ef unga fólkið fer, þá er ekki von á góðu. Hvað á að gera?  Þar sem við slíkan vanda er að ræða er svarið: menntun og meiri menntun sem skapar fjölbreytt störf. Unga fólkið sem menntar sig verður að geta snúið til baka. Það gat mín kynslóð ekki.     


Fótboltamenning

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að ég les norræn blöð nokkuð reglulega. Því fór það ekki fram hjá mér að danskir og sænskir fjölmiðlar voru í algjöru kasti í gær eftir dapurlegan endi á landsleik Svía og Dana í knattspyrnu sem endaði með að Svíum var dæmdur 3-0 sigur eftir danska kýlingu í maga Svía og árás á dómarann. Í morgun voru heilar 14 fréttir um þennan atburð í Politiken og Dagens Nyheter segir frá því að öryggisgæsla verði stórhert í leiknum milli Íslands og Svíþjóðar nú í vikunni.

Fótboltamenning er afar athyglisvert fyrirbæri. Hún er mjög karllæg en reyndar höfðar fótbolti æ meira til kvenna enda mikill uppgangur í kvennafótbolta. Á landsleikjum reynir á þjóðerniskennd og stundum á stuðningur við ákveðin lið meira skylt við trúarbrögð en íþróttaáhuga. Áhorfendur haga sér oft afar illa, geta ekki tekið tapi og nú síðast hefur það gerst trekk í trekk að leikmenn missa stjórn á skapi sínu og láta hnefana (eða höfuðið) tala með afar alvarlegum afleiðingum fyrir leikinn og liðin. Landsleikir og leikir milli meistaraliða kalla á mikla öryggisgæslu utan sem innan valla. Það liggur stundum við styrjöldum og mannslíf í hættu. Merkilegt fyrirbæri.

Daninn blindfulli sem hljóp út á völlinn framdi drottinssvik og blöðin nánast öskruðu í gær á fólk að upplýsa hver hann væri en því var haldið leyndu. Reyndar var hann ekki til frásagnar fyrr en í gærmorgun en þá mundi hann bara ekki neitt enda hafði hann drukkið 16 bjóra að eigin sögn. Svikarinn átti ekki að sleppa við afhjúpun, honum skyldi refsað. Nú er hann búinn að biðjast afsökunar en ég efast um að honum verði fyrirgefið. Svo mikil er heiftin.

Málið er auðvitað það að danska knattspyrnusambandið ber alla ábyrgð á öryggi á völlunum sem og á að bjór skuli seldur í ómældu magni meðan á leik stendur. Ein fréttanna í morgun fjallaði um endurskoðun á áfengisstefnu á knattspyrnuvöllum Danaveldis. Það er í raun sérkennilegt að bjórþamb og knattspyrna skuli svo nátengd. Endurtekin slagsmál og óeirðir eru til marks um að eitthvað meiri háttar þarf að gera til að breyta þeirri ómenningu sem farin er að einkenna fótboltaleiki um of og eyðileggja annars góða skemmtun.

Nú hefur ómenningin birst í sinni verstu mynd í leik tveggja Norðurlandaþjóða á því augnabliki þegar spennan stóð sem hæst. Hinni friðsömu ímynd Norðurlandanna er ógnað að sinni. Hvernig bregðast Svíar við í næsta leik þjóðanna? Hvað skyldu menn nú læra af þessum skandal?


Kvennaklósettið 30 ára

Ég rakst á frétt um að búið væri að gefa bókina Kvennaklósettið eftir Marilyn French út að nýju. Hún kom út fyrir nákvæmlega 30 árum í Bandaríkjunum og þremur árum síðar hér á landi. Kvennaklósettið fór sem eldur yfir akur um heiminn og vakti mikla athygli. Í bókinni segir Marilyn French sögu giftrar konu í úthverfi sem brýst út úr hefðbundnu kvenhluverki og leitar eigin leiða. Bókin var mjög í samræmi við þá kenningu Betty Friedan að konur væru að sóa lífi sínu til lítils og samfélagið að verða af miklum mannauði með því að leggja ofuráherslu á hlutverk kvenna sem mæður og húsmæður. Marilyn French segir sögu kvenna sem tóku Friedan á orðinu og gerðust þátttakendur í kvennabyltingunni.

Síðan eru liðin 30 ár og það væri gaman að draga nú þessa bók upp úr pússinu og kanna hvernig hún hefur staðist tímans tönn.


25 ára afmæli kvennaathvarfsins

Tíminn hann er fugl sem flýgur hratt. Að hugsa sér að 25 ár séu liðin frá stofnun Samtaka um kvennaathvarf. Það var haldið upp á það í dag með ljómandi góðri samkomu í Iðnó þar sem blandað var saman stuttum ræðum og söng.

Ég rifjaði upp í mínu ávarpi að það voru ekki síst umræður á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 1980 sem vöktu athygli okkar hér á landi á umfangi kynbundins ofbeldis. Ég sé í stefnuskrá Kvennaframboðsins í Reykjavík sem einmitt bauð fram vorið 1982 að þá hafði verið gerð könnun sem benti til þess að ofbeldi gegn konum væri verulegt vandamál. Því hófst umræða um nauðsyn þess að koma upp athvarfi fyrir konur þar sem þeim yrði veitt skjól og ráðgjöf.

Síðan eru liðin 25 ár en ofbeldið hefur ekki minnkað nema síður sé. Gistinóttum kvenna og barna fjölgar í athvarfinu og í máli framkvæmdastýru athvarfsins í fréttum RÚV í kvöld kom  fram að ofbeldið væri að verða grófara.

Á þessum 25 árum höfum við öðlast mikla þekkingu á eðli og umfangi kynbundins ofbeldis. Þegar kvennaathvarfið var stofnað var t.d. ekkert farið að tala um kynferðislega misnotkun á börnum. Sú umræða kom upp síðar. Já, þekkingin hefur aukist og aðgerðir hafa verið samþykktar til að draga úr ofbeldinu en að mörgu leyti hefur þróunin gengið í þveröfuga átt. Klámvæðing, vændi og mansal er stundað sem aldrei fyrr. Alþjóðlegir samningar hafa verið gerðir til að draga úr kynbundnu ofbeldi, það hefur verið skilgreint í lögum og aðgerðaáætlanir samdar, t.d. hér á landi en samt benda rannsóknir til þess að ofbeldið sé að aukast. Fyrir nokkrum árum tókst að koma því inn í alþjóðalög að kynbundið ofbeldi eins og nauðganir á átakasvæðum teldust til stríðsglæpa en þar með var hægt að ákæra karla fyrir skipulagðar nauðganir sem iðulega hafa átt sér stað í styrjöldum. Ekkert bendir þó til að það dragi úr nauðgunum á átaksvæðum sbr. ástandið í Sómalíu.

Kynbundið ofbeldi á sér mun dýpri rætur en svo að hægt sé að rífa þær upp á nokkrum árum með lögum og aðgerðaáætlunum. Það þarf miklu meira til.

Í fyrra hlustaði ég á feministann Judith Butler sem benti á hvernig kynferðislegri niðurlægingu væri beitt í sífellt meira mæli til að niðurlægja "óvininn". Vísaði hún m.a. til þeirrar meðferðar sem fangar í Abu Graib fangelsinu í Bagdad höfðu mátt sæta og mikið var fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma. Þar komu konur því miður líka að málum við að niðurlægja fanga kynferðislega. Kynbundið ofbeldi er því farð að beinast að körlum líka, sem nýtt "stríðsvopn". Judith Butler kallaði eftir bandalögum feminista og annarra til að vinna saman gegn vaxandi mannfyrirltningu og valdníðslu.

Þekking á kynbundnu ofbeldi og afleiðingum þess hefur margar hliðar og augljóst að fangaverðir hafa lært mikið af klámmyndunum sem tröllríða fjölmiðlum. Þær ganga að mjög miklu leyti út á að hlutgera og niðurlægja konur, konur þjóna, karlar "njóta".  

Það hefur aldrei verið brýnna en nú að sameinast gegn kynbundnu ofbeldi í öllum þess myndum, þar með talið klám, vændi og mansal. Allt hangir þetta saman. Skilningsleysi og kvenfyrirlitning eru svo gegnumgangandi að samfélag okkar lætur ofbeldi gegn konum líðast, sbr. dóm eftir dóm sem sýna að ofbeldi gegn konum þykir mun léttvægari glæpur en t.d. þjófnaður eða eiturlyfjasmygl.

Hvað segir það um samfélag okkar ef bæjarstjóri eins stærsta sveitafélags utan Reykjavíkur kemst upp með að heimsækja alræmdan súlustað, hvaða "þjónustu" sem hann kaupir þar. Hvar eru kröfurnar um að hann segi af sér fyrir að heimsækja stað sem grunaður er um að vera með konur í þjónustu sinni sem seldar hafa veirð mansali? Mansal er hluti af því ofbeldi sem konur eru beittar viða um heim. Mál hans verður prófsteinn á vilja samfélagsins til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband