Helför gegn stúlkubörnum

Í nýútkomnu Læknablaði er að finna athyglisverða grein eftir læknana Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor, Linn Getz dósent og Anna Luise Kirkengen prófessor þar sem vakin er athygli á ábyrgð heilbrigðisstétta á þeirri markvissu eyðingu stúlkubarna sem á sér stað víða um heim, einkum þó í Kína og Indlandi. Nýjasta tækni sem m.a. kemur frá Vesturlöndum er notuð til að kanna kyn fósturs og eyða þeim í stórum stíl, reynist vera um kvenkyn að ræða.

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína árið 1995 var vakin athygli á þessari hrikalegu þróun sem tengist mismunandi mati á kynjunum og ýmsum menningarþáttum svo sem að viðhalda nafni ættarinnar (Kína þar sem aðeins má eiga eitt barn) og heimanmundi stúlkna (Indland), auk fátæktar. Árið 1995 var talið að í Kína væru 15 milljón fleiri karlar en konur. Fimm árum síðar var talan komin upp í 30 milljónir og síðasta talan sem ég heyrði var 50 milljónir. Í greininni í Læknablaðinu er nefnt að talið sé að talan sé samanlagt 80 milljónir í Kína og Indlandi.

Það hafa ekki allir efni á að láta greina kyn fósturs og því er næsta hörmungarstigið í helförinni að bera stúlkubörn út. Mér er minnisstæð grein og myndir í dönsku blaði fyrir nokkrum árum þar sem blaðamenn gengu fram á barnslík (stúlka) í rennusteini við götu í Peking. Þeir fylgdust með nokkra stund. Vegfarendur létu sem þeir sæju ekki líkið en loks tók einn sig til og henti því í ruslatunnu. Í Indlandi er töluvert um að stúlkubörn séu seld í verksmiðjuvinnu eða vændi. Fjölskyldurnar reyna að losa sig við stúlkurnar. Kynjamisréttið hefst í móðurkviði og það gengur erfiðlega að breyta viðhorfum, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir stjórnvalda.

Afleiðingarnar eru og verða margvíslegar. Milljónir karla eiga erfitt með að finna sér maka, vændi blómstrar sem aldrei fyrr og nú þegar er farið að bera á ránum á konum frá öðrum ríkjum. Konur ganga kaupum og sölum þótt ætla mætti að "verðmæti" þeirra myndi aukast. Kannski gerist það meðal hinna betur stæðu. Áhrif á vinnumarkað verða eflaust mikil til lengri tíma litið í ljósi hefðanna, t.d. hvað varðar umönnun barna og aldraðra. Skyldu synirnir taka þau störf að sér?

Það er rétt sem fram kemur í grein læknanna að heilbrigðisstéttir þurfa að vera meðvitaðar um þessa hljóðu helför og beita sér gegn henni. Það er ekki aðeins að við hér á Vesturlöndum séum að leggja til þekkingu og tækni heldur er ekki ólíklegt að margmenningarsamfélagið bjóði þeirri hættu heim að fólk komi með þennan hluta (ó)menningar sinnar með sér. Rétt eins og búið er að banna umskurð á stúlkubörnum með lögum á Íslandi, þarf að setja reglur sem koma í veg fyrir kynjamisrétti á fósturstigi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er ekki aðeins í þessu hryllilega dæmi heldur einnig í mörgum öðrum að læknar eiga að vera meðvitaðir um siðferðilega ábyrgð sína.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.6.2007 kl. 16:41

2 identicon

Hlutverk foreldra er vanmetið. Læknar eru örmagna hér á landi og álagið ekki okkur til farsældar. Góð úttekt Kristín!

kveðja,

Jónína 

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband