Bókmenntir láta undan síga í fjölmiðlum

Lesbók Morgunblaðsins birti viðtal við Jón Kalman Stefánsson sl. laugardag þar sem rithöfundurinn fjallar um stöðu bókmenntanna og feril sinn. Að mínum dómi er Jón Kalman einn af allra bestu rithöfundum okkar og bók hans Sumarljós og svo kemur nóttin er með bestu bókum sem ég hef lesið árum saman. Hún er full af húmor og næmum mannlýsingum sögðum í stuttum sögum með rödd þorpsins.

Í greininni ræðir Jón Kalman um umfjöllun fjölmiðla um bókmenntir sem er öll að verða í skeytastíl eins og fólk þekkir úr Kastljósinu fyrir jól, þegar hver bók fær svona um það bil tvær mínútur og er síðan dæmd í hnotskurn. Næsta vetur ætlar ríkissjónvarpið að bæta um betur og mun Egill Helgason sjá um bókmenntaþátt og gerist þar með ekki bara stjórnandi álitsgjafanna "numero uno" heldur það sem á dönsku er kallað "smagsdommer" sem eru þeir sem stýra listasmekknum. Mikið vald í höndum eins karls. Ég er reyndar svo hundleið á þessum karlaþáttum hans og fleiri þáttastjórnenda að ég nenni ekki að horfa eða hlusta á þá en sem bókmenntaunnandi ætla ég að gefa honum sjéns.

Fyrir nokkrum vikum hlustaði ég á norska bókmenntafræðinginn og femnístann Toril Moi en hún er heimsþekkt innan sinnar fræðigreinar og hefur m.a. skrifað bók um Simone de Beauvoir. Hún var að líta yfir farinn veg á ráðstefnunni Past-Present-Future sem haldin var í Umeå eins og ég hef áður minnst á. Hún minnti á að þegar nýja kvennahreyfingin reis upp um 1970 bar mest á bókmenntum kvenna og kvennasögu í umræðunni, það var verið að gera konur sýnilegar með því að draga þær fram í dagsljósið og skoða birtingarmyndir þeirra í bókmenntunum. Núna eru bókmenntirnar nánast horfnar úr kynjafræðunum, sagði Moi og sagan líka bæti ég við.

Bókmenntir hafa ekki sama þunga í þjóðfélagsumræðunni og áður. Það á ekki aðeins við um kynjaumræðuna. Það sem vakti athygli mína og tengist viðtalinu við Jón Kalmann var að Toril Moi sagði að umfjöllun um bækur væri nánast að hverfa úr dagblöðum í Bandaríkjunum. Hún fer helst fram í sérblöðum og er hætt að vera hluti af daglegri menningarumfjöllun.

Þrátt fyrir mikla bókaútgáfu og alls konar metsölubækur virðast bókmenntir og þá einkum gæðabókmenntir, hvernig sem við svo skilgreinum þær, eiga í vök að verjast í fjölmiðlaheiminum sem þróast sífellt lengra í þá átt að pakka allt niður í 30 sekúndna skot eða örstutta pistla. Allt á að vera stutt og í hnotskurn. Það er bókmenntunum ekki til góðs. Eins og Toril Moi sagði, þá þurfum við að spyrja okkur hvers vegna við lesum skáldskap? Er það ekki af því að hann segir okkur eitthvað um okkur sjálf, náungann og samfélagið, eða snertir strengi í brjósti okkar? Við Íslendingar lesum enn mikið og er þá ástæða til að draga úr umfjöllun um þennan mikilvæga hluta menningar okkar?   Hvaðan er þessi niðursuðuhugsun eiginlega komin og hverjum þjónar hún?

Nei, meiri bókmenntaumfjöllun, meiri umfjöllun um listir og hvers kyns menningarviðburði. Þúsundir á þúsundir ofan njóta menningarinnar og taka þátt í að skapa hana. Það er menningarlífið sem gefur dögunum lit og líf.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband