20.6.2007 | 17:00
Kvennaslóðir í gang á ný
Það er eins gott að leiðrétta síðasta pistil því ég sá í Mogganum í morgun að Einar Oddur mætti til að taka við bleika steininum í gær. Hann hefur sem betur fer sannfærst um að það ætti ekki að gera grín að honum heldur að hvetja hann til dáða. Nú bíðum við eftir aðgerðum þeirra norðvestanmanna til að bæta stöðu kvenna.
Að öðru máli. Á morgun stendur mikið til hjá okkur á Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Gagnagrunnurinn Kvennaslóðir verður opnaður að nýju við hátíðlega athöfn kl. 12.00 í sal Þjóðminjasafnsins. Þorgerður Katrín opnar grunninn en menntamálaráðuneytið hefur ásamt fleiri aðilum styrkt endurgerð grunnsins. Gamli grunnurinn reyndist full flókinn og seinvirkur en nú er heldur betur búið að breyta útlitinu og einfalda skráningu.
Kvennaslóðir er upplýsingabanki um konur sem eru sérfræðingar á öllum hugsanlegum sviðum. Hann er ætlaður fjölmiðlum, stjórnendum og stjórnvöldum sem leita að viðmælendum eða fulltrúum í stjórnir og ráð. Reynslan og rannsóknir sýna að það er mikil þörf fyrir svona upplýsingabanka. Konur eru aðeins 30% viðmælenda í fjölmiðlum og hlutur kvenna í stjórnum og ráðum jafnt á einkamarkaði sem hinum opinbera er svo rýr að tárum tekur. Þar stöndum við Íslendingar langt að baki annarra vestrænna þjóða sem við berum okkur saman við. Það á að jafna stöðu kynjanna og stofnanir samfélagsins eiga að endurspegla þjóðfélag beggja kynja. Kvennaslóðir eru tæki til þess.
Nú tekur vonandi við betri tíð með blóm í haga, sæta, langa sumardaga, með brosandi sem alvarlega kvensérfæðinga út um allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2007 | 21:15
Bleikur bær og launamunur kynjanna
Þá er 19. júní að kvöldi kominn. Dagurinn hefur verið undirlagður af umfjöllun um stöðu kvenna, allt frá upprifjunum á aðdraganda kosningaréttarins 1915 til launamunar kynjanna. Það verður ekki annað sagt en að fjölmiðlarnir hafi staðið sig vel en það ættu þeir auðvitað að gera alla hina 364 dagana þegar karlar eru alls ráðandi. Hvað um það, ég ætla að vera ánægð með daginn.
Dagurinn hófst með viðtölum í morgunútvarpinu þar sem Jóhanna jafnréttisráðherra lýsti því meðal annars yfir að það kynni að verða nauðsynlegt að setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Það er bráðnauðsynlegt. Annars gerist ekkert. Reynsla Norðmanna af lögum er góð en þar í landi ber stjórnum fyrirtækja að hafa séð til þess fyrir lok ársins að hlutur hvors kyns um sig sé ekki minni en 40%.
Kl. 10.00 voru bleiku steinarnir afhentir þingmönnum "norðvesturkarlakjördæmisins" þeim til hvatningar í störfum sínum. Af viðtölum við þá að dæma hafa þeir allir unnið vel að jafnréttismálum en eitthvað er nú mikið að í þeirra flokkum og í kjördæminu fyrst engin kona komst á þing þar á bæ. Þeir sýna vonandi og sanna að þeir hafi átt skilið að fá þessi hvatningarverðlaun. Eitthvað misskildi Einar Oddur málið, fannst að það væri verið að gera grín að sér og neitaði að taka við steininum. Þetta er hvatning ekki verðlaun fyrir unnin störf. Einar Oddur getur sýnt jafnréttishug í verki, t.d. innan fjárlaganefndar með því að styðja kvennasamtök til góðra verka.
Svo var kynnt ný könnun á launamisrétti kynjanna sem staðfesti það sem við vissum fyrir að bæði konur og karlar eru mótuð af því viðhorfi að konur og vinna þeirra sé minna virði en karla. Konur bjóða öðrum konum lægri laun en körlum og karlstjórnendur bjóða körlum enn hærri laun. Við búum í kynjakerfi sem gerir þennan greinarmun á kynjunum. Það þarf heldur betur að gera atlögu að ríkjandi viðhorfum og það kallar á aðgerðir.
Síðdegis var svo kvennasögugangan sem tókst aldeilis ljómandi vel, þótt ég segi sjálf frá. Mæting var góð enda veðrið einstaklega gott. Eftir gönguna var boðið upp á kaffi og pönnukökur á Hallveigarstöðum, ásamt ræðum og kynningu á blaðinu 19. júní. Ingibjörg Sólrún rakti söguna og setti í samhengi við stöðu dagsins. Hennar niðurstaða var sú að hlýðni væri versti óvinur kvenna og að þessi hlýðni stæði fullveldi og frelsi kvenna fyrir þrifum. Þessu er ég innilega sammála. Bríet var ekki hlýðin, heldur ögrandi. Kvennaframboð voru ekki hlýðni við kerfið heldur uppreisn gegn því. Óhlýðni og samstaða hefur skilað konum meiri árangri en hlýðnin sem við erum aldar upp í.
Þetta er mjög umhugsunarvert þegar hlutur kvenna á þingi hefur staðnað og við erum enn einu sinni minnt á að launamisrétti kynjanna er inngreipt í hugsunarhátt þjóðarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 21:36
Heima á ný með mýbit
Ég kom til landsins seinni partinn í dag eftir margra daga fjarveru. Ég var í Svíþjóð, alla leið norður í Umeå á kynjafræðiráðstefnu sem stóð frá fimmtudegi til sunnudags. Þar af leiðandi hef ég ekki bloggað stafkrók í heila viku. Eins gott að bæta úr því. Á næstu dögum mun ég því flytja hinar ýmsu Svíþjóðarfréttir.
Á morgun er 19. júní - kvenréttindadagurinn - og þá ætla ég meðal annars að leiða göngu um slóðir kvenna í Þingholtunum og Kvosinni. Það er að segja ef heilsan leyfir. Ég varð nefnilega fyrir árás í Umeå eða réttara sagt út við ströndina sem er við Vesterbotten. Það var ógnarkvikindið mýfluga sem réðist á mig og beit mig. Þetta er í þriðja skipti sem ég verð fyrir mýbiti á Norðurlöndum og í þriðja skipti sem ég stokkbólgna og fæ nokkuð sterk ofnæmisviðbrögð. Það er ótrúlegt að þetta næstum því ósýnilega kvikindi á norðurslóðum skuli geta valdið slíkum skaða. Kjöraðstæður mýsins eru sæmilegur hiti, vatn og skógur. Þegar þetta þrennt er til staðar fljúga þær um sem óðar og bíta þá sem þeim líst vel á en ég er greinilega í þeim hópi. Mýið fer svo sannarlega í manngreinarálit, það kærir sig ekkert um sumt fólk, hvort sem það eru blóðflokkar eða eitthvað annað sem ræður því. They love me.
Ráðstefnugestum sem fluttu erindi eða tóku þátt í umræðum var boðið í kvöldferð út að ströndinni þar sem snæddur var grillaður fiskur og fleira gott. Alls kyns varnir voru hafðar uppi en ein flugan ákvað að reyna að stinga mig í gegnum sokkana og tókst það.
Ég er búin að taka inn ofnæmistöflu, bera sótthreinsandi á stungusvæðið (það getur grafið í sárinu) og loks smurði bróðir minn elskulegur á mig bólgueyðandi geli. Nú er að sjá hvernig og hvort þetta dugar til að gera mig göngufæra á morgun.
Bloggar | Breytt 19.6.2007 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.6.2007 | 22:49
Myndir sem skylt er að horfa á!
Ég var að horfa á fræðslumynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem sá snjalli David Attenborough fjallaði um hækkandi hitastig á jörðunni og áhrif þess á lífríkið eða gróðurhúsaáhrifin margumræddu. Það sem var einna athyglisverðast var að Attenborough bar saman atriði úr myndum sem hann gerði fyrir 27 árum (Life on Earth) og sýndi fram á þær breytingar sem orðið hefðu.
Einna svakalegast var að sjá kóralrifin við Ástralíu sem eru að tapa lífi og lit vegna þess að þörungarnir sem hafa búið á þeim eru að hverfa. Sýndar voru byggðir sem ýmist eru að sökkva í sjó eða sand á svæðum vaxandi eyðimarka. Leitað var til fjölda vísindamanna sem ýmist voru að rannsaka jökla og bráðnun þeirra, veðurfar, þar með talda fellibyli og áhrif þeirra eða líf hvítabjarna á norðurslóðum sem eiga mjög í vök að verjast vegna hlýnunar sjávar og bráðnunar íss. Tími birnanna til að afla fæðu hefur styst um þrjár vikur vegna þess að ísinn er forsenda veiðanna. Litlu ísbjarnarhúnarnir geta því lent í svelti. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á 25 árum. Mengun er líka að fara illa með ísbirnina þótt það kæmi reyndar ekki fram hjá Attenborough.
Fram kom að hópur vísindamanna hefur gert reiknimódel til að bera saman eðlilegar breytingar á veðurfari í ljósi sögu jarðarinnar og svo þess sem gerst hefur undanfarin 120 ár. Breytingarnar tóku stökk upp úr 1970 og þær eru mun hraðari en með nokkru móti telst eðlilegt. Orsökin er án efa lifnaðarhættir mannsins.
Í næsta þætti fer David Attenborough nánar í ýmsa þætti gróðurhúsaáhrifanna. Það er alveg ljóst að aðalorsakavaldurinn er brennsla kolefna (kol og olía) sem er að gera "verndarhjúpinn" umhverfis jörðina æ þykkari með þeim afleiðingum að undir honum vex hitinn stöðugt.
Hvað skyldi líða langur tími þar til tekið verður á þessum vanda af alvöru og stefnan tekin á breytta lifnaðarhætti sem fela í sér að dregið verði stórkostlega úr mengun og hvers kyns eituráhrifum? Á meðan Bandaríkjaforseti og hans lið lemur haus við stein er ekki von á úrbótum. Bandaríkin eru aðalsökudólgurinn meðal ríkja heims. Það er öfugsnúið að fólk sem stöðugt er með guðsorð á vörum skuli ekki vilja verja sköpunarverkið. Sem betur fer styttist í lok valdatíðar Bush og vonandi rennur þá upp önnur öld, öld þeirra sem horfast í augu við eyðilegginguna og hefjast handa við að bjarga móður jörð og allri hennar stórkostlegu fjölbreytni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2007 | 18:09
Clinton hinn kvensami
Ég skellti mér í sund áðan í góða veðrinu. Á heimleiðinni hitti ég vinkonu mína sem var að koma frá Vínarborg. Þar bar helst til tíðinda að tveir tignargestir voru í heimsókn og settu mark sitt á mannlífið í borginni með öryggisgæslu og fjölmiðlafári. Annar var Pútín forseti Rússlands og var öryggisgæslan aðallega vegna hans. Hinn var Bill Clinton sem kominn var til Vínar til að afla fjár í þágu baráttunnar gegn alnæmi í Afríku.
Fjáröflunarsamkoma var haldin við höllina Schönbrunn sem var aðsetur keisaranna í Austurísk-Ungverska keisaradæminu þar til þeim síðasta var kurteislega sagt að hypja sig 1918. Clinton til halds og trausts var leikkonan Sharon Stone sem óneitanlega er afar glæsileg kona. Fjölmiðlum fannst þau skötuhjúin brosa ískyggilega mikið hvort til annars en eins og þeir minnast sem muna eftir valdatíð Clintons þá lék kvensemi forsetans fyrrverandi hann grátt.
Fjölmiðlar hundeltu Clinton og Stone og mynduðu í bak og fyrir. Forsíður voru undirlagar af fréttum af þeim með getgátusniði. Nú er bara að vona að Clinton hagi sér almennilega og fari ekki að eyðileggja fyrir Hillary konu sinni. Nýtt framhjáhalds- eða kynlífshneyksli gæti orðið henni dýrkeypt í þeirri baráttu sem framundan er um tilnefningu sem forsetaframbjóðandi fyrir hönd demókrata.
Hillary á þegar á brattann að sækja en ég er sannfærð um að fengur yrði að henni sem forseta, hún heldur fram allt öðrum gildum en bókstafstrúarliðið sem nú býr í Hvíta húsinu. En hún kemst aldrei þangað ef Bill lætur kvensemina stjórna sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 15:50
Blair tættur í sundur
Jón Baldvin Hannibalsson eðalkrati skrifar athyglisverða grein í Moggann í dag þar sem hann rífur Tony Blair og stefnu hans í sig. Blair skrifaði nýlega grein í The Economist um þá lærdóma sem hann dregur af tíu ára valdaferli sínum. Hann hefur einkum lært það að hægri mönnum sé best treystandi fyrir verndun lýðræðisins (með hervaldi) og vinstri mönnum fyrir velferðinni.
Þessa niðurstöðu telur Jón Baldvin fráleita og er svo sannarlega hægt að taka undir það eins og ótal dæmi sanna. Í stað þess að standa vörð um frið og lýðræði og fara sáttaleiðir er búið að setja heiminn á annan endann á nokkrum árum og skapa nýjar hættur sem heimurinn á eftir að glíma við í áratugi.
Jóni Baldvin verður sérstaklega tíðrætt um fylgispekt Blair við Bush og stjórn hans og þær hrikalegu afleiðingar sem Írakstríðið hefur og mun hafa í Mið-Austurlöndum. Þá ræðir hann líka um aumingjalegar tilraunir Blair til að koma Palestínumönnum til varnar en Bandaríkjamenn hafa ekki hlustað á hann heldur styðja Ísraelsstjórn og halda ríkinu uppi hvað sem þeir brjóta af sér. Það þarf nú vart að minna á hvernig Bandaríkjastjórn brýtur mannréttindi á föngum og má í því sambandi minna á dóm sem féll vegna Kanadamanns sem var handtekinn 15 ára gamall í Afganistan og hefur verið í haldi síðan án dóms og laga. Réttindi barna eru ekki einu sinni virt!
Niðurstaða Jóns er sú að Blair hafi dregið Verkamannaflokinn niður í svaðið en í því sambandi má minna á að þrátt fyrir mikla andstöðu innan flokksins hefur Blair haft meirihlutann með sér. Það kemur flokknum nú í koll.
Ég furðaði mig mjög á því í aðdraganda Íraksstríðsins hvers vegna Bretar voru að láta draga sig út í Íraksfenið en bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Píslarvottar nútímans skýrði málið að nokkru. Írak er smíði Breta og þeir áttu og eiga enn mikilla hagsmuna að gæta á þeim slóðum. Bretar eru líka í olíuiðnaðinum og halda greinilega enn að þeir geti vaðið um heiminn með her sinn þótt það sé reyndar í skjóli USA.
Það verður mikið verk fyrir arftaka Blair að hreinsa upp skítinn eftir hann, takist það yfirleitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 15:29
Frábær kvikmynd
Loksins lét ég af því verða í gær að drífa mig í bíó til að sjá þýsku myndina Líf annarra. Og þvílík mynd! Mig dreymdi Stasi í nótt.
Myndin lýsir ástandinu í Austur-Þýskalandi um miðjan níunda áratug síðustu aldar rétt áður en Gorbasjof koms til valda í Sovétríkjunum en austurblokkin hrundi eins og hún lagði sig nokkrum árum síðar.
Litli en færi Stasimaðurinn fær það verkefni að fylgjast með pari, leikskáldi og leikkonu, ekki af því að þau séu grunuð um andóf gegn sæluríki sósíalismans heldur er ráðamaður að misnota vald sitt. Það á að finna eitthvað á leikskáldið. Í stuttu máli sagt gerist það sem ekki á að gerast, eftir því sem Stasimaðurinn kemst betur inn í líf listamannanna vaknar samúð hans, þau lifa því lífi sem hann á ekki kost á. Til þess að eyðileggja nú ekki myndina fyrir þeim sem þetta lesa og eiga eftir að sjá hana, segi ég ekki meira. Það er mjög margt sem kemur fram í myndinni um samfélagið, vald og valdaleysi, ástir og svik og hvernig gott fólk getur látið til sín taka.
Þarna er valinn leikari í hverju rúmi. Sebastian Koch leikur rithöfundinn en hann sást nýlega í ríkissjónvarpinu í hlutverki arkitektsins Albert Speer. Fyrir nokkrum árum var hann margverðlaunaður fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndunum um Mannfjölskylduna (Klaus Mann) og hann var líka verðlaunaður fyrir mynd um von Stauffenberg, þann sem stýrði tilraun til að myrða Adolf Hitler 1944. Martina Gedeck leikur leikkonuna en hún er ein virtasta kvikmyndaleikkona Þýskalands þótt ég kannist ekki við að myndir með henni hafi verið sýndar hér á landi. Svo er það loks Ulrich Mühe sem hefur hlotið verðlaun fyrir túlkun sína á Stasimanninum en mér er hann minnisstæður úr sjónvarpsmyndinni Nikolaikirche sem sýnd var fyrir nokkrum árum og fjallaði einmitt um mótmælin í Leipzig sem leiddu til þess að landamæraverðir opnuðu hliðin og múrinn féll.
Látið Líf annarra ekki fram hjá ykkur fara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 16:47
Kenningar um krabbamein
Ég lagði leið mína í Háskólabíó í dag til að hlusta á Jane Plant en hún hefur sett fram kenningar um tengsl mataræðis og vaxandi tíðni krabbameins. Jane Plant glímdi sjálf við brjóstakrabbamein og velti mikið fyrir sér orsökum þess að hún veiktist. Hún vann við rannsóknir í Kína og það vakti athygli hennar hve fátítt krabbamein var í því stóra landi en þar hefur til skamms tíma tíðkast allt annað mataræði en á Vesturlöndum, einkum byggt á hrísgrjónum og grænmeti. Amerísk ómenning er hins vegar að berast til Asíu eins og annarra heimshluta og það er eins og við manninn mælt, krabbameinstilfellum fjölgar.
Í stuttu máli sagt heldur Plant því fram að annars vegar sé fæði okkar allt of súrt og hins vegar að við séum að dæla í okkur alls kyns auka- og eiturefnum sem geta valdið krabbameini. Aðalsökudólgurinn er að hennar dómi allur sá mjólkurmatur sem við Vesturlandabúar neytum. Eftir að hún veiktist var henni ráðlagt að borða jógúrt og hún veiktist að nýju. Eftir að hún hætti algjörlega að borða mjólkurmat, hvarf krabbameinið. Fleiri hafa sömu sögu að segja og meðal lærisveina hennar er dr. Oddur Benediktsson prófessor.
Það hefur lengi verið talið að samhengi væri milli lífsstíls og vaxandi tíðni krabbameins. Bent hefur verið á áhættuþætti eins og reykingar, mengun, geislun og slæmt mataræði, t.d. unnar matvörur. Plant bendir á að við séum alls ekki gerð til að þamba mjólk alla ævina og það sem verra er, nútímamjólk geldur fyrir áburð, hormóna, lyf og annað það sem kúnum er gefið. Plant sýndi mynd af breskum kúm sem búið er að rækta þannig að þær hafa nánast engin hold en gríðarleg júgur. Við vitum að umhverfi okkar er orðið mjög mengað og mjólkin fer ekki varhluta af því.
Hver eru ráðin? Jú, að draga sem mest úr neyslu mjólkurvara og alveg ef fólk veikist af krabbameini. Auka neyslu á lífrænu grænmeti, ávöxtum, baunum, sojaafurðum og hætta neyslu á nauta- og svínakjöti sem helst verður fyrir barðinu á ræktun og hormónagjöfum. Þá þarf vart að nefna nauðsyn þess að auka hreyfingu.
Því meira af ávöxtum og grænmeti í bland við hreyfingu og aðra hollustu, því betra.
Jane Plant hefur meðal annars skrifað bókina: Your Life in Your Hands: Understanding, Preventing and Overcoming Breast Cancer (2006).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.6.2007 | 14:06
Helför gegn stúlkubörnum
Í nýútkomnu Læknablaði er að finna athyglisverða grein eftir læknana Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor, Linn Getz dósent og Anna Luise Kirkengen prófessor þar sem vakin er athygli á ábyrgð heilbrigðisstétta á þeirri markvissu eyðingu stúlkubarna sem á sér stað víða um heim, einkum þó í Kína og Indlandi. Nýjasta tækni sem m.a. kemur frá Vesturlöndum er notuð til að kanna kyn fósturs og eyða þeim í stórum stíl, reynist vera um kvenkyn að ræða.
Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína árið 1995 var vakin athygli á þessari hrikalegu þróun sem tengist mismunandi mati á kynjunum og ýmsum menningarþáttum svo sem að viðhalda nafni ættarinnar (Kína þar sem aðeins má eiga eitt barn) og heimanmundi stúlkna (Indland), auk fátæktar. Árið 1995 var talið að í Kína væru 15 milljón fleiri karlar en konur. Fimm árum síðar var talan komin upp í 30 milljónir og síðasta talan sem ég heyrði var 50 milljónir. Í greininni í Læknablaðinu er nefnt að talið sé að talan sé samanlagt 80 milljónir í Kína og Indlandi.
Það hafa ekki allir efni á að láta greina kyn fósturs og því er næsta hörmungarstigið í helförinni að bera stúlkubörn út. Mér er minnisstæð grein og myndir í dönsku blaði fyrir nokkrum árum þar sem blaðamenn gengu fram á barnslík (stúlka) í rennusteini við götu í Peking. Þeir fylgdust með nokkra stund. Vegfarendur létu sem þeir sæju ekki líkið en loks tók einn sig til og henti því í ruslatunnu. Í Indlandi er töluvert um að stúlkubörn séu seld í verksmiðjuvinnu eða vændi. Fjölskyldurnar reyna að losa sig við stúlkurnar. Kynjamisréttið hefst í móðurkviði og það gengur erfiðlega að breyta viðhorfum, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir stjórnvalda.
Afleiðingarnar eru og verða margvíslegar. Milljónir karla eiga erfitt með að finna sér maka, vændi blómstrar sem aldrei fyrr og nú þegar er farið að bera á ránum á konum frá öðrum ríkjum. Konur ganga kaupum og sölum þótt ætla mætti að "verðmæti" þeirra myndi aukast. Kannski gerist það meðal hinna betur stæðu. Áhrif á vinnumarkað verða eflaust mikil til lengri tíma litið í ljósi hefðanna, t.d. hvað varðar umönnun barna og aldraðra. Skyldu synirnir taka þau störf að sér?
Það er rétt sem fram kemur í grein læknanna að heilbrigðisstéttir þurfa að vera meðvitaðar um þessa hljóðu helför og beita sér gegn henni. Það er ekki aðeins að við hér á Vesturlöndum séum að leggja til þekkingu og tækni heldur er ekki ólíklegt að margmenningarsamfélagið bjóði þeirri hættu heim að fólk komi með þennan hluta (ó)menningar sinnar með sér. Rétt eins og búið er að banna umskurð á stúlkubörnum með lögum á Íslandi, þarf að setja reglur sem koma í veg fyrir kynjamisrétti á fósturstigi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2007 | 17:50
Bókmenntaveisla
Í gær hófst lestur tveggja íslenskra skáldsagna á rás 1 í Ríkisútvarpinu, báðar endurteknar. Halldór Laxness hóf lestur Atómstöðvarinnar kl. 17.45 í Víðsjá og eftir kvöldfréttir byrjaði Þorsteinn Gunnarsson leikari sinn frábæra lestur á Drekum og smáfuglum eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Margar skáldsagna Halldórs Laxness voru mjög umdeildar á sínum tíma, engin þó eins og Atómstöðin sem var skrifuð á tímum mikilla þjóðfélagsátaka. Hún fjallar um norðanstúlkuna Uglu sem kemur til Reykjavíkur til að verða að manni og til að læra á orgel. Hún gerist stofustúlka hjá þingmanninum sínum sem er á kafi í samningum um herstöðvar og heima hjá honum ganga amerískir herforingjar um stofur. Allt annan heim er að finna hjá organistanum þar sem skáld, listamenn og portkona sitja löngum stundum og ræða lífið og tilveruna. Mörgum ráðamanninum fannst að sér vegið í sögunni en hún er einstök samtímalýsing auk þess hvað hún er bráðskemmtileg.
Saga Ólafs Jóhannes er síðasti hluti þríleiks um blaðamanninn Pál Jónsson, sveitamanns sem kemur til Reykjavíkur og kynnist þar hringiðu borgarlífsins í gegnum starf sitt á blaðinu Blysfara. Ísland er hernumið og Páll fylgist með því hvernig íslenskt samfélag fer á annan endann. Öllum gildum er snúið við hvert var þjóðin eiginlega að stefna?
Þríleikur Ólafs Jóhanns er tilraun til að ná utan um og lýsa þeim miklu breytingum sem urðu á íslensku samfélagi þegar heimskreppunni lauk og nútíminn hélt innreið sína fyrir alvöru með breskum og síðar bandarískum her. Hinn rólyndi Páll flækist fram og aftur um völundarhús spillingar og græðgi, ástar og svika og alls þess annars sem við sögu kemur. Þorsteinn gerir söguna einkar lifandi en ég verð að segja eins og er að það fór mjög í taugarnar á mér þegar ég las þessar sögur hve dauflegar og neikvæðar kvenpersónurnar voru. Þar var ekki ein einasta kona sem hafði eitthvað til málanna að leggja. Skrýtið því Ólafur Jóhann var kvæntur miklum kvenskörungi. En, ég ætla svo sannarlega að hlusta á báðar sögurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)