25.6.2007 | 19:10
Bókmenntir láta undan síga í fjölmiðlum
Lesbók Morgunblaðsins birti viðtal við Jón Kalman Stefánsson sl. laugardag þar sem rithöfundurinn fjallar um stöðu bókmenntanna og feril sinn. Að mínum dómi er Jón Kalman einn af allra bestu rithöfundum okkar og bók hans Sumarljós og svo kemur nóttin er með bestu bókum sem ég hef lesið árum saman. Hún er full af húmor og næmum mannlýsingum sögðum í stuttum sögum með rödd þorpsins.
Í greininni ræðir Jón Kalman um umfjöllun fjölmiðla um bókmenntir sem er öll að verða í skeytastíl eins og fólk þekkir úr Kastljósinu fyrir jól, þegar hver bók fær svona um það bil tvær mínútur og er síðan dæmd í hnotskurn. Næsta vetur ætlar ríkissjónvarpið að bæta um betur og mun Egill Helgason sjá um bókmenntaþátt og gerist þar með ekki bara stjórnandi álitsgjafanna "numero uno" heldur það sem á dönsku er kallað "smagsdommer" sem eru þeir sem stýra listasmekknum. Mikið vald í höndum eins karls. Ég er reyndar svo hundleið á þessum karlaþáttum hans og fleiri þáttastjórnenda að ég nenni ekki að horfa eða hlusta á þá en sem bókmenntaunnandi ætla ég að gefa honum sjéns.
Fyrir nokkrum vikum hlustaði ég á norska bókmenntafræðinginn og femnístann Toril Moi en hún er heimsþekkt innan sinnar fræðigreinar og hefur m.a. skrifað bók um Simone de Beauvoir. Hún var að líta yfir farinn veg á ráðstefnunni Past-Present-Future sem haldin var í Umeå eins og ég hef áður minnst á. Hún minnti á að þegar nýja kvennahreyfingin reis upp um 1970 bar mest á bókmenntum kvenna og kvennasögu í umræðunni, það var verið að gera konur sýnilegar með því að draga þær fram í dagsljósið og skoða birtingarmyndir þeirra í bókmenntunum. Núna eru bókmenntirnar nánast horfnar úr kynjafræðunum, sagði Moi og sagan líka bæti ég við.
Bókmenntir hafa ekki sama þunga í þjóðfélagsumræðunni og áður. Það á ekki aðeins við um kynjaumræðuna. Það sem vakti athygli mína og tengist viðtalinu við Jón Kalmann var að Toril Moi sagði að umfjöllun um bækur væri nánast að hverfa úr dagblöðum í Bandaríkjunum. Hún fer helst fram í sérblöðum og er hætt að vera hluti af daglegri menningarumfjöllun.
Þrátt fyrir mikla bókaútgáfu og alls konar metsölubækur virðast bókmenntir og þá einkum gæðabókmenntir, hvernig sem við svo skilgreinum þær, eiga í vök að verjast í fjölmiðlaheiminum sem þróast sífellt lengra í þá átt að pakka allt niður í 30 sekúndna skot eða örstutta pistla. Allt á að vera stutt og í hnotskurn. Það er bókmenntunum ekki til góðs. Eins og Toril Moi sagði, þá þurfum við að spyrja okkur hvers vegna við lesum skáldskap? Er það ekki af því að hann segir okkur eitthvað um okkur sjálf, náungann og samfélagið, eða snertir strengi í brjósti okkar? Við Íslendingar lesum enn mikið og er þá ástæða til að draga úr umfjöllun um þennan mikilvæga hluta menningar okkar? Hvaðan er þessi niðursuðuhugsun eiginlega komin og hverjum þjónar hún?
Nei, meiri bókmenntaumfjöllun, meiri umfjöllun um listir og hvers kyns menningarviðburði. Þúsundir á þúsundir ofan njóta menningarinnar og taka þátt í að skapa hana. Það er menningarlífið sem gefur dögunum lit og líf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2007 | 13:21
Spennandi njósnakvendi
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á millistríðsárunum og heimsstyrjöldinni síðari. Þetta var um margt mjög spennandi tími. Fyrst umbrot og uppgjör við ríkjandi gildi sem m.a. birtust í listum og "nýju konunni", síðan harðstjórn og hreinsanir Stalíns í Sovétríkjunum og uppgangur nasista og fastista í nokkrum ríkjum Evrópu sem leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar. Hvernig gat þetta gerst og það í Evrópu? Við þá spurningu hafa sagnfræðingar, félags- og sálfræðingar sem og aðrir fræðimenn glímt áratugum saman.
Í gærkvöldi sá ég brot af heimildamynd um sænsku söngkonuna Zarah Leander (1907-1981) en hún var einkar vinsæl í Þýskalandi á fjórða áratugnum og mjög hampað af nasistum. Hún var fráskilin tveggja barna móðir og hélt sig eins fjarri glaumi nasistalífsins og hún komst upp með. Hún er samt grunuð um að hafa stundað njósnir í Þýskalandi en ekki kemur fram í heimildum fyrir hvern. Ég fór sem sagt að lesa mér til um Zöru sem kom sér frá Þýskalandi 1943 þegar halla tók undan fæti hjá Þjóðverjum. Skýringin er m.a. sú að aðdáendur hennar og yfirvöld þrýstu á hana að gerast þýskur ríkisborgari en það vildi hún ekki. Ef satt er að hún hafi njósnað þurfti hún kannski að forða sér. Þótt Svíar hafi að mestu verið "hlutlausir" í styrjöldinni var heimkoman Zöru mjög erfið vegna þess orðspors sem af henni fór sem nasistasöngkonu.
Í kaflanum um Zöru var nefnd önnur kona sem ég ætla svo sannarlega að kynna mér betur. Það er Olga Chekhova (1897-1980) en hún var ein þekktasta og vinsælasta kvikmyndaleikkona þriðja ríkisins. Til eru myndir af henni við hlið Hitlers en hún var einkum í vinfengi við Göbbels áróðursmálaráðherra sem nefnir hana oft í dagbókum sínum (ég sá reyndar heimildamyndir um þær í vetur). Olga var Rússi af þýskum ættum, frænka leikskáldsins Anton Thekovs (eins og við skrifum nafnið oftast) og hún giftist frænda hans. Eftir að hún skildi hélt hún til Þýskalands þar sem hún náði miklum frama í kvikmyndum.
En viti menn. Hún njósnaði fyrir Sovétríkin. Það kom í ljós þegar skjalasöfn voru opnuð um sinn eftir fall Sovétríkjanna. Breski sagnfræðingurinn Antony Beevor hefur skrifað bók um hana sem heitir The Mystery of Olga Chekhova. Beevor var hér á ferð í vetur vegna útkomu bókar hans um Fall Berlínar og það er viðtal við hann í nýjasta hefti Sögu. Enn ein spennandi bókin sem ég verð að lesa.
Talið er að ástæðan fyrir því að Olga stundaði njósnir hafi fremur verið sú að hún var að verja fjölskyldu sína í Rússlandi fremur en af hollustu við ríki Stalíns. Bróðir hennar var í rússnesku leyniþjónustunni og réði hana til starfa. Það sýnir sterka stöðu hennar að hún var handtekin eftir fall Berlínar 1945 og flutt til Moskvu til yfirheyrslu en sleppt nokkrum dögum síðar og send aftur til Berlínar. Eftir styrjöldina féll nafn hennar að mestu í gleymsku og dá.
Þær eru margar sögurnar sem ekki hafa verið sagðar af konum fyrri tíma en nú er verið að draga þær fram í dagsljósið. Þessar tvær konur eru dæmi um frægar konur sem léku tveimur skjöldum þótt ekki sé alveg ljóst hvaða hlutverk Zarah Leander lék í sögu þriðja ríkisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2007 | 19:53
Betl og hundsbit í miðbænum
Það var frábær dagur lengst af í dag. Bókmenntaklúbburinn minn hittist á Hótel Holti í hádeginu og þar snæddum við undurgóðan hádegisverð. Á eftir hélt hópurinn í bæinn utan ein sem var á leið í næsta partý. Það tókst að komast niður á Jómfrú án mikilla útgjalda en litið var inn í nokkrar búðir. Í portinu á bak við Jómfrúna voru jasstónleikar að vanda en þeir hefjast nú kl. 15.00 alla laugardaga. Þeir Erik Quick, Sigurður Flosason og félagar fluttu ljúfan djass. Eftir því sem ég best veit skipuleggur Sigurður Flosason sumartónleika Jómfrúarinnar og hann er algjör snillingur. Þvílíkur mússíkant.
Eftir að tónleikunum lauk rölti ég í bókabúðir og stefndi loks á ríkið í Austurstræti til að kaupa hvítvín. Á leiðinni varð ég enn einu sinni fyrir því að menn reyndu að betla af mér peninga. Fyrir nokkrum dögum var ég inni í apóteki á Laugaveginum þar sem náungi einn bað mig um peninga og ég er hreinlega alltaf að lenda í þessu í miðbænum. Annað hvort ég ég svona góðkvenleg eða ríkkvenleg. Ég verð oft við slíkum óskum en þetta fer mjög í taugarnar á mér. Betl er bannað og til skammar. Borgaryfirvöld verða að taka á þessu ástandi í miðbænum.
En þá er það lokahnykkurinn á deginum. Þegar ég kom út úr ríkinu heyrði ég sáran barnsgrát. Lítill drengur grét hátt í fangi föður síns og blóð lak úr nefi og munni. Hann hafði vikið sér að hundi sem var bundinn fyrir utan ríkið en hundurinn gerði sér lítið fyrir og beit hann í andlitið. Foreldrarnir voru í sjokki en ég og fleiri sem þarna voru sögðu þeim að koma sér á Slysavarðstofuna á stundinni. Pabbinn brá sér inn í anddyrið og spurði hver ætti hundinn en síðan hröðuðu foreldrarnir sér af stað, vonandi á leið beint upp á spítala.
Ég varð vitni að því þegar eigandi hundsins kom á spretti út úr ríkinu, losaði hundinn og hljóp í burtu. Ég hafði ekki vit á því að reyna að stoppa hann, hefði viljað hafa myndavél. Hann var á fertugsaldri, mundi ég halda, mjög ljós yfirlitum og á rauðum stuttbuxum. Hann hljóp af vettvangi en að mínum dómi á að lóga dýrum sem bregðast svona við. Ég veit ekki nákvæmlega hvað barnið gerði en ég get ekki ímyndað mér að litli drengurinn hafi gert nokkuð það sem réttlætti þessi viðbrögð hundsins. Börn eru yfirleitt hrifin af dýrum. Ég er enn í uppnámi en vona að litli drengurinn hafi ekki beðið mikinn skaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.6.2007 | 22:28
Fréttir af sænskum einkabréfum
Sagnfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir heimildum um einkalíf fólks. Hvað er leyfilegt að birta eða nota, hversu langt má ganga í að túlka tilfinningar og frá hverju má segja? Þeir sagnfræðingar sem rannsaka dagbækur eða bréf, heimildir sem ekki voru ætlaðar öðrum en þeim sem skrifaði eða viðtakanda bréfs, verða að glíma við margar siðferðilegar spurningar. En hvernig á að bregðast við þegar eigendur bréfa taka sig til og birta þau, jafnvel þótt þau kunni að særa fjölskyldur viðkomandi eða valda nánast uppþoti. Hver á þá að spyrja siðferðilegra spurninga eða eru þær óþarfar?
Þessa dagana fjalla sænskir fjölmiðlar um ástarbréf tónskáldsins og vísnasöngvarans Evert Taube til konu að nafni Siv Seybolt. Á miðvikudag afhenti hún Gautaborgarháskóla 200 bréf sem Evert Taube skrifaði henni. Taube var sextugur þegar samband þeirra hófst upp úr 1950, Seybolt var þá 27 ára. Hann var giftur maður og átti börn og barnabörn.
Þeir sem þekkja til vísna og laga Evert Taube vita að hann orti gjarnan um alls konar konur ekki síst dömur í suðrænum höfnum, t.d. stúlkuna frá Havanna sem seldi sjómanninum blíðu sína fyrir rúbínhring eða þá hún Carmensíta sem vildi alls ekki giftast sænska sjóaranum. Þeim sem ekki vita hver Evert Taube er má segja að hann samdi t.d. lagið sem hér er sungið undir heitinu Vorkvöld í Reykjavík. Sven Bertil Taube sonur Everts sem er bæði frægur vísnasöngvari og leikari segir í viðtali að faðir sinn hafi dáð konur og ort um þær, vísurnar endurspegli platónska sýn skáldsins á konur fremur en ástarsambönd. Hann kannast ekki við að móðir sín hafi kvartað yfir framhjáhaldi.
Bréfin endurspegla heitt samband milli skáldsins/söngvarans og ungu konunnar. Þau ferðuðust saman og meðan Evert lá á spítala rigndi bréfunum yfir Siv. Í bunkanum fannst frumrit að einu laga Taube en þar var líka að finna bréf frá eiginkonunni sem bað Siv að skila ýmsum eigum Everts, t.d. hring. Hún vissi sem sagt af sambandinu.
Evert Taube er goðsögn. Hinir yndislegu söngvar hans munu lifa um aldir. Þess vegna vekja þessi bréf svona mikla athygli. Það er nú þegar byrjað að vinna úr þeim með útgáfu bókar í huga. Þegar fræga fólkið á í hlut er engum hlíft. Þá komast engar siðferðisspurningar að. Bréfin varpa án efa nýju ljósi á líf Evert Taube en það má spyrja hvort ekki hefði mátt bíða þar til lengra er liðið frá dauða hans (1976). Hvaða reglur eiga að gilda um svo persónulegar heimildir? Því er vandsvarað og hver á að svara því?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2007 | 21:38
Fréttir af sænska mýbitinu
Ég fékk margar samúðarkveðjur eftir að ég skrifaði pistilinn um sænska mýbitið. Það kannast margir við þennan fjanda og hafa ljótar sögur að segja. Bitið þróaðist þannig að ofnæmistöflurnar virkuðu og smátt og smátt dró úr bólgunni. Ég hélt á tímabili að ég væri komin með blóðeitrun svo ljótur var bletturinn kringum bitið en svo vaknaði ég næsta morgun og þá var blárauði liturinn svo til horfinn og núna lítur sárið út eins og mar.
Svona lýsingar eru ekkert spennandi lesning en það þarf að vara fólk við sem fer til Norðurlandanna á sumrin. Ég var að velta fyrir mér hvers konar fyrirbæri þetta er? Hvers konar eitur er það sem flugurnar spýta inn í mann og hvers vegna bregst ég og margir fleiri svona hart við. Eru Íslendingar eitthvað sérstaklega viðkvæmir fyrir mýbiti á norðurslóðum eða hvað? Ég býst við að þeir sem búa með kvikindunum öll sumar séu meira og minna ónæmir. Það væri gaman ef einhver gæti frætt mig um þetta.
Þegar ég vann á Balkanskaganum fyrir nokkrum árum var enginn skortur á moskítóflugum en þær eru greinilega af allt öðrum stofni. Bit þeirra ollu blöðrum og það gróf í þeim. Engar bólgur, í það minnsta ekki hjá mér. Þær eru hins vegar þekktar fyrir að bera alls konar pestir á milli manna t.d. malaríu. Nóg um mýbit að sinni. Íslenska sumarið bíður bjart og fagurt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 16:51
Svartur blettur á þjóðfélaginu
Viðar Eggertsson leikstjóra rak í rogastans er hann heyrði viðtal við mig að kvöldi 19. júní í fréttum ríkissjónvarpsins. Ég svaraði því til að mér fyndust niðurstöður könnunar HR á launamun kynjanna sem birtar voru fyrr um daginn ekki setja svartan blett á kvenréttindadaginn enda væri verið að staðfesta það sem við vissum áður. Viðar túlkar svar mitt sem svo að það sé í lagi að konur bjóði öðrum konum lægri laun en þær bjóða körlum eins og könnunin leiðir í ljós.
Að sjálfsögðu er það ekki í lagi. Og það er heldur ekki í lagi að karlar bjóði öðrum körlum enn hærri laun en þeir bjóða konum. Launamisréttið er óþolandi en það hefur verið staðfest í mörgum könnunum. Það er hluti af þjóðfélagsgerð okkar. Á þjóðveldisöld voru laun kvenna um helmingur af launum karla. Um aldamótin 1900 voru laun verkakvenna þriðjungur til helmingur af launum verkamanna. Nú hefur þó tekist að koma þessum mun upp í um það bil tvo þriðju af launum karla ef miðað er við meðallaun. Þó þokast allt, allt of hægt. Kynbundinn launamunur, þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, menntunar og fleiri þátta er svo annað mál. Hann er talinn um 15% (Félagsmálaráðuneytið 2006) sem er mun hærri tala en hjá þeim löndum sem við miðum okkur helst við.
Ég skil ekki að fólk skuli vera undrandi á því að konur bjóði öðrum konum lægri laun en körlum eða ráðleggi þeim að biðja um lægri laun. Konur eru aldar upp í þessu þjóðfélagi kynjamismunar og við erum aldar upp í því að við og okkar störf séu minna virði en störf karla. Þau skilaboð berast úr öllum áttum, m.a. með þeirri staðreynd hve bráðnauðsynleg störf kvennastétta eru metin til lágra launa. Það kostar átak og breytt hugarfar að brjótast út úr þeim hugsunarhætti.
Franski félagsfræðingurinn Pierre Boudieu hefur sett fram kenningar um hvernig valdi er viðhaldið innan ákveðinna hópa. Þar leika menning, menntun, kyn, hefðir og tengslanet stórt hlutverk. Konur eru ekkert síður en karlar þátttakendur í að viðhalda því valdi sem hluti karla hefur yfir samfélaginu. Konur ráða líka yfir valdi, m.a. valdinu til að viðhalda óbreyttu ástandi. Með því að mótmæla ekki, með því að vera hlýðnar og góðar, með því að bíða og segja: þetta er allt að koma, með því að hafna aðgerðum til að jafna stöðu kynjanna, með því að neita því að kyn skipti máli, viðhalda konur ríkjandi ástandi.
Það þarf að breyta hugarfarinu og til þess þarf markvissar aðgerðir, allt frá því í leikskólum og upp úr. Það er á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða en einstaklingarnir bera líka ábyrgð við að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Ef marka má nýjar rannsóknir er jafnréttisuppeldið sem svo mikil áhersla var lögð á upp úr 1970 nánast gleymt og grafið. Því yngri Íslendingar, því sterkari staðalmyndir af kynjunum.
Foreldrar, afar og ömmur, leikskólakennarar, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, atvinnurekendur, launafólk og ekki síst baráttufólk, við berum öll ábyrgð á jafnrétti þegnanna. Launamisrétti kynjanna er svartur blettur á íslensku samfélagi ekki bara 19. júní heldur alla hina 364 dagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.6.2007 | 17:00
Kvennaslóðir í gang á ný
Það er eins gott að leiðrétta síðasta pistil því ég sá í Mogganum í morgun að Einar Oddur mætti til að taka við bleika steininum í gær. Hann hefur sem betur fer sannfærst um að það ætti ekki að gera grín að honum heldur að hvetja hann til dáða. Nú bíðum við eftir aðgerðum þeirra norðvestanmanna til að bæta stöðu kvenna.
Að öðru máli. Á morgun stendur mikið til hjá okkur á Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Gagnagrunnurinn Kvennaslóðir verður opnaður að nýju við hátíðlega athöfn kl. 12.00 í sal Þjóðminjasafnsins. Þorgerður Katrín opnar grunninn en menntamálaráðuneytið hefur ásamt fleiri aðilum styrkt endurgerð grunnsins. Gamli grunnurinn reyndist full flókinn og seinvirkur en nú er heldur betur búið að breyta útlitinu og einfalda skráningu.
Kvennaslóðir er upplýsingabanki um konur sem eru sérfræðingar á öllum hugsanlegum sviðum. Hann er ætlaður fjölmiðlum, stjórnendum og stjórnvöldum sem leita að viðmælendum eða fulltrúum í stjórnir og ráð. Reynslan og rannsóknir sýna að það er mikil þörf fyrir svona upplýsingabanka. Konur eru aðeins 30% viðmælenda í fjölmiðlum og hlutur kvenna í stjórnum og ráðum jafnt á einkamarkaði sem hinum opinbera er svo rýr að tárum tekur. Þar stöndum við Íslendingar langt að baki annarra vestrænna þjóða sem við berum okkur saman við. Það á að jafna stöðu kynjanna og stofnanir samfélagsins eiga að endurspegla þjóðfélag beggja kynja. Kvennaslóðir eru tæki til þess.
Nú tekur vonandi við betri tíð með blóm í haga, sæta, langa sumardaga, með brosandi sem alvarlega kvensérfæðinga út um allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2007 | 21:15
Bleikur bær og launamunur kynjanna
Þá er 19. júní að kvöldi kominn. Dagurinn hefur verið undirlagður af umfjöllun um stöðu kvenna, allt frá upprifjunum á aðdraganda kosningaréttarins 1915 til launamunar kynjanna. Það verður ekki annað sagt en að fjölmiðlarnir hafi staðið sig vel en það ættu þeir auðvitað að gera alla hina 364 dagana þegar karlar eru alls ráðandi. Hvað um það, ég ætla að vera ánægð með daginn.
Dagurinn hófst með viðtölum í morgunútvarpinu þar sem Jóhanna jafnréttisráðherra lýsti því meðal annars yfir að það kynni að verða nauðsynlegt að setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Það er bráðnauðsynlegt. Annars gerist ekkert. Reynsla Norðmanna af lögum er góð en þar í landi ber stjórnum fyrirtækja að hafa séð til þess fyrir lok ársins að hlutur hvors kyns um sig sé ekki minni en 40%.
Kl. 10.00 voru bleiku steinarnir afhentir þingmönnum "norðvesturkarlakjördæmisins" þeim til hvatningar í störfum sínum. Af viðtölum við þá að dæma hafa þeir allir unnið vel að jafnréttismálum en eitthvað er nú mikið að í þeirra flokkum og í kjördæminu fyrst engin kona komst á þing þar á bæ. Þeir sýna vonandi og sanna að þeir hafi átt skilið að fá þessi hvatningarverðlaun. Eitthvað misskildi Einar Oddur málið, fannst að það væri verið að gera grín að sér og neitaði að taka við steininum. Þetta er hvatning ekki verðlaun fyrir unnin störf. Einar Oddur getur sýnt jafnréttishug í verki, t.d. innan fjárlaganefndar með því að styðja kvennasamtök til góðra verka.
Svo var kynnt ný könnun á launamisrétti kynjanna sem staðfesti það sem við vissum fyrir að bæði konur og karlar eru mótuð af því viðhorfi að konur og vinna þeirra sé minna virði en karla. Konur bjóða öðrum konum lægri laun en körlum og karlstjórnendur bjóða körlum enn hærri laun. Við búum í kynjakerfi sem gerir þennan greinarmun á kynjunum. Það þarf heldur betur að gera atlögu að ríkjandi viðhorfum og það kallar á aðgerðir.
Síðdegis var svo kvennasögugangan sem tókst aldeilis ljómandi vel, þótt ég segi sjálf frá. Mæting var góð enda veðrið einstaklega gott. Eftir gönguna var boðið upp á kaffi og pönnukökur á Hallveigarstöðum, ásamt ræðum og kynningu á blaðinu 19. júní. Ingibjörg Sólrún rakti söguna og setti í samhengi við stöðu dagsins. Hennar niðurstaða var sú að hlýðni væri versti óvinur kvenna og að þessi hlýðni stæði fullveldi og frelsi kvenna fyrir þrifum. Þessu er ég innilega sammála. Bríet var ekki hlýðin, heldur ögrandi. Kvennaframboð voru ekki hlýðni við kerfið heldur uppreisn gegn því. Óhlýðni og samstaða hefur skilað konum meiri árangri en hlýðnin sem við erum aldar upp í.
Þetta er mjög umhugsunarvert þegar hlutur kvenna á þingi hefur staðnað og við erum enn einu sinni minnt á að launamisrétti kynjanna er inngreipt í hugsunarhátt þjóðarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 21:36
Heima á ný með mýbit
Ég kom til landsins seinni partinn í dag eftir margra daga fjarveru. Ég var í Svíþjóð, alla leið norður í Umeå á kynjafræðiráðstefnu sem stóð frá fimmtudegi til sunnudags. Þar af leiðandi hef ég ekki bloggað stafkrók í heila viku. Eins gott að bæta úr því. Á næstu dögum mun ég því flytja hinar ýmsu Svíþjóðarfréttir.
Á morgun er 19. júní - kvenréttindadagurinn - og þá ætla ég meðal annars að leiða göngu um slóðir kvenna í Þingholtunum og Kvosinni. Það er að segja ef heilsan leyfir. Ég varð nefnilega fyrir árás í Umeå eða réttara sagt út við ströndina sem er við Vesterbotten. Það var ógnarkvikindið mýfluga sem réðist á mig og beit mig. Þetta er í þriðja skipti sem ég verð fyrir mýbiti á Norðurlöndum og í þriðja skipti sem ég stokkbólgna og fæ nokkuð sterk ofnæmisviðbrögð. Það er ótrúlegt að þetta næstum því ósýnilega kvikindi á norðurslóðum skuli geta valdið slíkum skaða. Kjöraðstæður mýsins eru sæmilegur hiti, vatn og skógur. Þegar þetta þrennt er til staðar fljúga þær um sem óðar og bíta þá sem þeim líst vel á en ég er greinilega í þeim hópi. Mýið fer svo sannarlega í manngreinarálit, það kærir sig ekkert um sumt fólk, hvort sem það eru blóðflokkar eða eitthvað annað sem ræður því. They love me.
Ráðstefnugestum sem fluttu erindi eða tóku þátt í umræðum var boðið í kvöldferð út að ströndinni þar sem snæddur var grillaður fiskur og fleira gott. Alls kyns varnir voru hafðar uppi en ein flugan ákvað að reyna að stinga mig í gegnum sokkana og tókst það.
Ég er búin að taka inn ofnæmistöflu, bera sótthreinsandi á stungusvæðið (það getur grafið í sárinu) og loks smurði bróðir minn elskulegur á mig bólgueyðandi geli. Nú er að sjá hvernig og hvort þetta dugar til að gera mig göngufæra á morgun.
Bloggar | Breytt 19.6.2007 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.6.2007 | 22:49
Myndir sem skylt er að horfa á!
Ég var að horfa á fræðslumynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem sá snjalli David Attenborough fjallaði um hækkandi hitastig á jörðunni og áhrif þess á lífríkið eða gróðurhúsaáhrifin margumræddu. Það sem var einna athyglisverðast var að Attenborough bar saman atriði úr myndum sem hann gerði fyrir 27 árum (Life on Earth) og sýndi fram á þær breytingar sem orðið hefðu.
Einna svakalegast var að sjá kóralrifin við Ástralíu sem eru að tapa lífi og lit vegna þess að þörungarnir sem hafa búið á þeim eru að hverfa. Sýndar voru byggðir sem ýmist eru að sökkva í sjó eða sand á svæðum vaxandi eyðimarka. Leitað var til fjölda vísindamanna sem ýmist voru að rannsaka jökla og bráðnun þeirra, veðurfar, þar með talda fellibyli og áhrif þeirra eða líf hvítabjarna á norðurslóðum sem eiga mjög í vök að verjast vegna hlýnunar sjávar og bráðnunar íss. Tími birnanna til að afla fæðu hefur styst um þrjár vikur vegna þess að ísinn er forsenda veiðanna. Litlu ísbjarnarhúnarnir geta því lent í svelti. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á 25 árum. Mengun er líka að fara illa með ísbirnina þótt það kæmi reyndar ekki fram hjá Attenborough.
Fram kom að hópur vísindamanna hefur gert reiknimódel til að bera saman eðlilegar breytingar á veðurfari í ljósi sögu jarðarinnar og svo þess sem gerst hefur undanfarin 120 ár. Breytingarnar tóku stökk upp úr 1970 og þær eru mun hraðari en með nokkru móti telst eðlilegt. Orsökin er án efa lifnaðarhættir mannsins.
Í næsta þætti fer David Attenborough nánar í ýmsa þætti gróðurhúsaáhrifanna. Það er alveg ljóst að aðalorsakavaldurinn er brennsla kolefna (kol og olía) sem er að gera "verndarhjúpinn" umhverfis jörðina æ þykkari með þeim afleiðingum að undir honum vex hitinn stöðugt.
Hvað skyldi líða langur tími þar til tekið verður á þessum vanda af alvöru og stefnan tekin á breytta lifnaðarhætti sem fela í sér að dregið verði stórkostlega úr mengun og hvers kyns eituráhrifum? Á meðan Bandaríkjaforseti og hans lið lemur haus við stein er ekki von á úrbótum. Bandaríkin eru aðalsökudólgurinn meðal ríkja heims. Það er öfugsnúið að fólk sem stöðugt er með guðsorð á vörum skuli ekki vilja verja sköpunarverkið. Sem betur fer styttist í lok valdatíðar Bush og vonandi rennur þá upp önnur öld, öld þeirra sem horfast í augu við eyðilegginguna og hefjast handa við að bjarga móður jörð og allri hennar stórkostlegu fjölbreytni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)